Fara í efni

Fjárhagsáætlun Kjósarhrepps 2023-2026

Deila frétt:

 

Í lögum um opinber fjármál er lögð áhersla á að fjárhagsáætlanir skuli byggðar á traustum forsendum um efnahagsmál. Í reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga segir með beinum hætti í 17. gr. að við vinnslu fjárhagsáætlana skuli sveitarfélög styðjast við þjóðhagsspár Hagstofu Ísland þar sem við á. Nýleg spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (verðbólga) verði 5,6% á árinu 2023 sem er 0,7% hærra er spár Hagstofunnar gerðu ráð fyrir í sumar. Í sömu spá gerir Hagstofan ráð fyrir að launavísitalan verði 5,9% sem er sömuleiðis hækkun frá fyrri spá.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 miðar að því að skila hallalausum rekstri. Útlit er fyrir að reksturinn á árinu 2022 verði með meiri halla en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2022 og við því þarf að bregðast m.a. með hækkun sorpgjalda umfram vísitöluhækkun og hækkun útsvars. Það er ekki  létt ákvörðun að fara í þessar hækkanir en ef að sveitarfélagið á að geta sinnt sínum lögboðnu hlutverkum án þess að  sveitarsjóður verði rekinn með halla þriðja árið í röð þarf að fara í þessar aðgerðir.

Í fjárhagsáætlun Kjósarhrepps fyrir árið 2023 er gert  ráð fyrir að gjaldskrár hækki til samræmis við verðlagsvísitölu, þ.e. um 5,6%. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að laun hækki um 5,9%. Meiri hækkun er á sorpgjöldum vegna mikils halla á þeim málflokki undanfarin ár og gera má ráð fyrir að hann aukist enn frekar með innleiðingu nýrra laga um úrgangsmál, ef ekki er brugðist við.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2023

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 8.5 m.kr.
  • Skuldahlutfall  verði 80 % í árslok 2023.
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta er 60.3 m.kr.
  • Útsvarsprósenta 14.00% .
  • Álagning fasteignagjalda lækkar úr 0,35% í 0,33%. Með þessari lækkun er verið að spyrna við því að hækkun fasteignamats hafi áhrif á fasteignaskatta í Kjósarhreppi umfram verðbólgu. 
  • Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá A hluta fyrir árið 2023 hækki um 5,6 %.
  • Sorpgjöld hækka um 20% 
  • Áætlaðar fjárfestingar hitaveitu  í varanlegum rekstrarfjármunum nema nettó um 24 m.kr.
  • Ferðastyrkir til framhaldsskólanema hækka í 55 þ.kr.
  • Heimgreiðslur til foreldra ungbarna hækka í 80.000 þ.kr.

Nánar má lesa um fjárhagsáætlun Kjósarhrepps í greinargerð sem fylgir áætluninni. Sjá hér.