Félagsleg ráðgjöf
Markmið félagslegrar ráðgjafar er tvíþætt, annars vegar að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál og hins vegar stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda. Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar þannig að hver og einn geti notið sín sem best í samfélaginu.
Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á eftirtöldum sviðum:
- fjárhagsvanda og fjármála að öðru leyti
- húsnæðisvanda
- atvinnuleysis
- samskipta innan fjölskyldna, meðal annars sambúðarvanda
- uppeldismála og málefna barna og unglinga að öðru leyti
- hjónaskilnaða og sambúðarslita
- forsjár- og umgengnismála
- ættleiðingarmála
- áfengis- og vímuefnavanda
- skertrar færni og fötlunar
- aðstæðna á efri árum
Ávallt er leitast við að veita ráðgjöfina í samhengi við önnur úrræði ef við á og tengja hana þjónustu annarra aðila eftir því sem hentar, svo sem skóla, heilsugæslustöðvar, sérhæfðrar ráðgjafar á borð við SÁÁ o.s.frv.
Félagsleg ráðgjöf er meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Allir sem orðnir eru 18 ára og eiga lögheimili í Kjósarhreppi geta leitað ráðgjafar sér að kostnaðarlausu með því að snúa sér til fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sem fer með þjónustu fyrir sveitafélagið.
Starfsfólk fjölskyldusviðs er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði, svo sem ef barni er hætta búin.
Óskir þú eftir félagslegri ráðgjöf, vinsamlegast hafðu samband við Þjónustuver Mosfellsbæjar
í s. 525 6700 til að fá nánari upplýsingar.