Fara í efni

Gönguleiðir á Hvalfjarðarsvæðinu

Þyrill

Gönguleið    Fram og til baka

Vegalengd    1 km upp

Göngutími    1 klst upp

Landslag    Bratt og grýtt upp skarðið en slétt uppi

Hækkun    350 m

Mesta hæð    390 m

Gráðun C, nokkuð erfið gönguleið upp skarðið

Gengið er upp gil í Þyrli sem nefnist Indriðastígur og er nokkuð bratt og stórgrýtt, en stutt er upp á brún. Þaðan er tilvalið að ganga út á vesturbrún fjallsins þar sem útsýni er mikið.

Þyrill hefur löngum þótt virðulegt fjall. Í hlíðum þess hefur fundist mikið af sjaldgæfum tegundum af geislasteini og einstök kristalstegund, sem heitir epistilbit og hefur það aðeins fundist í þremur löndum heims.

Mikið hamrabelti krýnir Þyril að ofan og í það eru stöku skörð. Einhvern tíma höfðust ernir við í Þyrli en hvort svo er enn er ekki vitað.

Nafnið Þyrill er talið dregið af norðlægum sviptibyljum sem einnig eru nefndir  þyrilbyljir og verða oft þarna við fjallið. Koma þá ofsalegir vindar niður af Botnsheiði og eira engu sem á vegi þeirra verður. Stundum er fjörðurinn sléttur en annað veifið þjóta þessir vindar um og ýfa hafflötinn svo hann hvítfryssir.

Víða er auðfarið upp á Þyril. Ekki þarf endilega að fara beint upp hamrana þó það sé vandalítið. Ganga má upp brekkurnar vestan við Botnskálann í Botnsvogi. Þar heita Síldarmannabrekkur. Um þær var fjölfarin leið hér áður fyrr og heitir þar Síldarmannagötur og lágu yfir í Skorradal. Af Síldarmannagötum eru þrír fjórir kílómetrar fram á vesturbrún Þyrils.

Helguskarð sem er fremst á Þyrli er nefnt eftir Helgu jarlsdóttur, konu Harðar, sem Harðar saga og Hólmverja er við kennd. Helga flúði úr Geirshólma eftir að bóndi hennar hafði verið drepinn komst upp skarðið og hélt til mágkonu sinnar í Skorradal. Afrekið þykir mikið ekki síst fyrir þá sök að hún flutti þar með sér tvo syni sína.

Indriðastígur nefnist skarð austan við Helguskarð. Það er nefnt eftir Indriða á Indriðastöðum í Skorradal sem vó Þorsteinn gullknapp banamann Harðar er bjó að bænum Þyrli. Indriði fór niður skarð þetta, vó Þorstein, lýsti vígi sínu og hvarf aftur á braut.

Milli Indriðastaða og Þyrils er minnst 25 km svo ljóst má vera að ekki víluðu fornmenn það fyrir sér að skreppa snögga bæjarleið til að ljúka áríðandi málum. Hitt er svo annað mál að Helguskarð er frekar gil en skarð og Indriðastígur er enginn stígur heldur ósköp venjulegt gil í bröttu fjalli.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Þyrilsnes

Gönguleið    Hringleið

Vegalengd    6 km

Göngutími    1-2 klst.

Landslag    Tiltölulega slétt

Hækkun    Óveruleg

Mesta hæð    Um100 m

Gráðun    A, létt leið á láglendi, hindrunarlaus

Tengingar    Þyrill

Gengið er út á nesið, upp á Harðarhæð, þaðan nesið á enda og síðan til baka um suðurhluta nessins.

Þyrilsnes er sunnan undan Þyrli og þykir mjög fallegt gönguland enda við allra hæfi. Einkum er ströndin og fjaran athyglisverð.  Þar eru ýmis örnefni, sem minna á atburði í Harðarsögu og Hólmverja. Í henni er nesið nefnt Dögurðarnes vegna þess að fyrirsátursmenn Hólmverja snæddu þar nesti sitt, dögurð.

Hrikaleg lýsing er í sögunni á því er Hólmverjum var hreinlega slátrað í flæðarmálinu. Hörður, aðalsöguhetjan varðist þó frækilega en fell loks þar sem síðar heitir Harðarhæð á nesinu miðju.

Gangan um Þyrilsnes er ekki átakamikil en landslagið en fallegt og ekki skemmir sagan fyrir. Gaman er að reyna að sjá söguna fyrir sér og ekki er endilega víst að hún passi við aðstæður.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Botnsvogur

Botnsvogur heitir innsti hluti Hvalfjarðar og þar heitir Botnsdalur fyrir innan. Til beggja handa rísa há fjöll og hömrum girt. Sunnan megin Múlafjall, en norðan fjöllin sem ganga suður úr Botnsheiði, Selfjall, Háafell og Víðhamrafjall innst. Tveir bæir eru í Botnsdal, Stóri-Botn og Litli-Botn og eru báðir í eyði.

Um kjarri vaxinn  Botnsdal rennur Botnsá. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er fyrir ofan Hvalfell. Í ánni er Glymur, hæsti foss landsins, 198 m á hæð. Glymur fellur ekki óbrotinn af efstu brún, heldur kastast hann á syllum og eftir hamraveggnum, sem ekki er alls staðar lóðréttur. Glæsilegur er fossinn engu að síður, þar sem hann fellur ofan í hið hrikalega gljúfur.

Botnsárgljúfur er hæst við fossinn en fer snarlækkandi. Það er með öllu ókleyft og því erfitt að sá fossinn allan nema af eystri brún gljúfursins. Gljúfrið hefur líklega verið sprunga í upphafi, sem áin hefur smám saman sorfið til og dýpkað, enda bergið auðrofið. Mjög varasamt er að vaða inn eftir gljúfrinu því grjótið í hamraveggjunum er laust og úr þeim hrynur oft.

Vegur liggur af þjóðveginum inn eftir dalnum að bænum Stóra-Botni og þar við er bílastæði. Þaðan eru góðar gönguleiðir sem nú verður getið um.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Glymur

Gönguleið Fram og til baka eða hringleið

Vegalengd 10-12 km hringur

Göngutími 2-3 klst. hringur

Landslag Frekar aflíðandi hlíðar, auðvelt land

Hækkun 300 m

Mesta hæð Um 100 m

Gráðun B, stutt ganga, hindrunarlítil

Tengingar Hvalfell, að Hvalvatni, í kringum Hvalfell

Gönguleiðir upp að Glymi, austan megin og vestan megin.

Um þrjár leiðir er að velja að Glym.

Léttasta leiðin: Um það bil 45 mínútna gangur er frá bílastæðinu og upp að fossinum vestan megin og er þá gengið eftir jeppaslóðinni upp hliðina vinstra megin. Heitir þar Svartihryggur.

Þegar upp á fjallið er komið er gengið út að gljúfrinu, þ.e. í áttina að Hvalfelli. Til baka má fara sömu leið eða niður með gljúfrinu vestanverðu. Lítið mál er að vaða Botnsá þar sem hún kvíslast nokkru fyrir ofan fossinn. Þaðan er gengið niður með gljúfrinu eftir fallegri leið en nokkuð seinfarinni. Hvergi sést Glymur betur en af austurbarminum.

Vesturbarmurinn: hægt er að ganga rakleitt að gljúfrinu og þaðan upp með því, öfuga þá leið sem sagt var frá hér á undan.

Austurbarmurinn: Þá er gengið í gegnum hliðið á Stóra-Botni og haldið að göngubrúnni skammt fyrir neðan bæinn. Á leiðinni upp verður fyrst fyrir Hvalskarðsá, en oftast er hægt er að stikla hana rétt fyrir ofan ármótin við Botnsá. Nokkur gil tefja för en víðast er greinilegur göngustígur. Gilin eru sum mjög fallega mótuð og ekki úr vegi að gefa sér svolítinn tíma til að skoða þau.

Ástæða er að vara ferðalanga við Botnsárgljúfri. Bergið er ákaflega laust í sér. brúnirnar ákaflega viðkvæmar og geta hrunið við minnstu hreyfingu. Betra er því að halda sig minnst rúmu skrefi frá brúninni en gæta samt ítrustu varkárni.

Mælt er gegn því að ganga eða vaða inn eftir gljúfrinu.

Gljúfrið er ákaflega hrikalegt enda sorfið í tímanna rás. Víða er að sjá gróðurbletti í berginu, á syllum og í sprungum. Þar hefur múkkinn, fýllinn, tekið sér bólfestu og vegna uppstreymisins í gljúfrinu er fuglinn mikið á sveimi, enda listagóður sviffugl.

Skammt fyrir neðan gljúfrið hafa framtakssamir göngumenn lagt tvo svera trjáboli yfir ána og strengt vír þar fyrir ofan. Þarna geta þeir sem koma niður austan gljúfurs stytt sér leið að bílastæðinu. Trjábolirnir eru teknir af ánni yfir vetrartímann.

Botnsá kemur úr Hvalvatni, sem er um það bil fjóra kílómetra fyrir ofan Glym.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Hvalvatn

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd 6 km

Göngutími 3 klst.

Landslag Frekar aflíðandi hlíðar, auðvelt land

Hækkun 340 m

Mesta hæð Um 380 m

Gráðun B, stutt ganga, hindrunarlítil

Tengingar Í kringum Hvalfell  Gengið er upp að Hvalvatni og komið við í Arnesarhelli. Síðan er sama leið farin til baka.

Gönguleiðinn frá Glym og að Hvalvatni er létt, örlítið á fótinn, um mýrar og þúfuver. Best er að fylgja jeppaslóðinni. Mér finnst betra að ganga Hvalfellsmegin og veð því fljótlega yfir Botnsá.

Þar sem leiðin er rúmlega hálfnuð er komið að Breiðifossi sem er sérkennilegur, varla foss, heldur fellur á klöppum, jafn og listilega fagur, sérlega skemmtilegt myndaefni.

Um klukkustundar gangur er upp að Hvalvatni. Lítil stífla er við vesturenda vatnsins, þar sem mætast fjöllin Hvalfell og Veggir, en það síðarnefnda er lítið fell.

Lengi var Hvalvatn talið vera dýpsta vatn landsins, 160 m, en síðar kom í ljós að Öskjuvatn á metið, 217 m. Ekkert undirlendi er vatnsmegin við Hvalfell, en víðar sléttur norðan og austan megin vatnsins. Skinnhúfuhöfði heitir áberandi stapi austan við vatnið og er hann kenndur við tröllkerlingu nokkra.

Undir litlum klettahöfða um það bil kílómetra í austur frá stíflunni, er Arnesarhellir. Honum er nánar lýst í kaflanum um gönguleiðina í kringum Hvalvatn.

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir um Hvalvatn:

„Hvalvatn  á Botnsheiði verður að teljast  til merkisstaða í  sýslu þessari. Það dregur nafn af hvalbeinagrind, sem sagt er að hafi fundist þar. Alþýða manna segir, að enn sé þar að finna geysistórt hvalbein, og sagnir erlendis frá herma, að slíkar leifar sé þar að finna frá dögum syndaflóðsins. Af þessum ástæðum þótti okkur ekki fært að láta Hvalvatns ógetið með öllu. Við höfum ekki komið þar, en fullyrðingar tveggja greinagóðra manna hafa sannfært okkur um, að leifar þær sem frá var greint, séu einungis mosavaxinn steinn.“

Af þessu má draga þá ályktun, að Eggert og Bjarni hafi ekki alltaf látið vafasamar sögur hlaupa með sig í gönur. Þeir hafa áreiðanlega verið að velta fyrir sér nafninu á vatninu og firðinum og fundist upplagt að bæta sögunni við.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Í kringum Hvalfell

Gönguleið Hringleið

Vegalengd 15 km

Göngutími 5 klst.

Landslag Mjög greiðfært, ekki mikill bratti

Hækkun 340 m

Mesta hæð Um 380 m

Gráðun C, nokkuð löng gönguleið en greiðfær

Tengingar Hvalvatn

Gengið er í kringum Hvalfell og komið við hjá Glym og Arnesarhelli. Gengið er niður Hvalskarð til til baka að bílastæðinu við Stóra-Botn.

Gönguleiðin í kringum Hvalfell er nokkuð löng. Farið er þá leið sem á undan er lýst, að Glym og áfram að Hvalvatni. Þá er gengið austur með vatninu, undir Hvalfelli, í Hvalskarð, sem er á milli Hvalfells og Botnsúlna og niður í Botnsdal á ný. Leiðin er frekar auðveld, nema á stöku stað undir Hvalfelli. Á þessum slóðum ríkir einstök hálendiskyrrð.

Undir litlum klettahöfða um það bil kílómetra í austur frá stíflunni, þar sem síst skyldi gruna, er lítill hellir. Erfitt er að komast að honum og vart verður sá sóttur sem þar verst né heldur á hann sér nokkurrar undankomu auðið. Þarna var bæli útilegumannsins Arnesar Pálssonar sem nefndur var þjófur í samtímaskrám. Arnes er talinn fæddur á fyrri hluta 18. aldar, en dó árið 1805. Hann flæktist víða um land, lá úti, stal peningum og sauðfé, var dæmdur og sat inni í 26 ár í tugthúsinu í Reykjavík, þar sem nú er Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg.

Hér er leiðin um það bil hálfnuð. Framundan er stórgrýtið undir Hvalfelli. Nokkru austar er annað haft. Yfir það verður að klifra, því vatnsmegin er aðdjúpt. En hver veit nema að í þessum kletti leynist líka hellir? Skinnhúfuhöfði er handan vatnsins. Hann er kenndur við tröllskessunaSkinnhúfu, sem bjó í helli í höfðanum, eftir því sem þjóðsögur herma.

Hlíðin fyrir ofan vatnið er í senn sérkennileg og hrikaleg. Eins og gerist með móbergsfjöll eiga roföflin, vatn, ís og vindur, auðvelt með að sverfa bergið í hinar ýmsu kynjamyndir, hellar, gil, gljúfur og hvolfþök eru fyrir ofan skriðurnar. Einstaka krunk í krumma og þyturinn í nokkrum máfum og múkkum, sem í forvitni sinni steypa sér niður að einmanna ferðalangi, gera hann óneytanlega skelkaðan í þessu yfirþyrmandi, tröllslega landslagi.

Drjúgur spölur er frá stíflunni að suðurenda vatnsins við Hvalskarð. Leiðin er frekar seinfarinn vegna stórgrýtis og eins og fram hefur komið, skaga tveir höfðar út í vatnið og tefja för. Að öðru leyti er leiðin frekar greið.

Frá vatninu er ekki um mikla hækkun upp í Hvalskarð og þaðan er greið leið niður í Botnsdal, öll undan fæti. Fylgja má girðingunni frá Hvalskarðsvík, upp í skarðið og niður  að Hvalskarðsá, þar sem hún beygir ofan í Botnsdal. Hafi menn þrek eftir þetta langa göngu er þó ekki úr vegi að ganga nokkru hærra upp í hlíðar Hvalfells, fjær girðingunni. Liggur þar leiðinum um sérkennilegt land, sundurrofið af vatni. Sérstaklega er gil nokkurt athyglisvert, en það er suðvestan í Hvalfelli. Rennur þar lítill lækur úr fjallinu. Hann hefur sorfið hinar fegurstu geilar og dældir í móbergið.

Best er að fara yfir Hvalskarðsá nokkuð ofan við ármótin við Botnsá. Eftir því nær dregur er erfiðara að finna stað þar sem hægt er að stikla yfir þurrum fótum. Yfir Botnsá er að lokum farið á göngubrúnni fyrir neðan  Stóra-Botn.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Hvalfell

Gönguleið Fram og til baka eða hringleið

Vegalengd 5 km á tindinn, 11,5 km hringur

Göngutími 4 klst. hringur

Landslag Frekar bratt efst í gönguleiðinni á fjallið

Hækkun 800 m

Mesta hæð Um 848 m

Gráðun C, nokkuð erfið gönguleið

Tengingar Glymur, Hvalvatn, í kringum Hvalfell

Gengið er á Hvalfell og lagt upp frá bílastæðinu, á göngubrú yfir Botnsá og upp vesturhlíðina. Sama leið til baka eða niður með gljúfrinu austanverðu.

Hvalfell er hátt, tignarlegt og formfagurt eins og algengt er með önnur fjöll af þessari tegund. Neðri hluti fjallsins er sundurskorinn af giljum og gljúfrum svo fagurlega mótuðum að undrum sætir.

Hvalfell er móbergsstapi sem varð til við eldsumbrot undir jökli. Efst er þó grágrýti sem bendir til þess að eldgosið verið komið upp fyrir vatnsborðið og hraun náð að renna ofan á gjóskulögunum. Vegna móbergsins í neðri hluta fjallsins, hafa ár og lækir átt mjög auðvelt með að sverfa gil, gljúfur og hvilftir í fjallið og er það eitt af einkennum þess.

Þó ekki væri Glymur eða Botnsárgljúfur, væri gnótt skoðunarverða staða, sem haldið geta ferðalöngum hugföngnum í langan tíma. Þess vegna er ekki verra að hafa myndavél meðferðis.

Best er að fara yfir Botnsá á göngubrúnni fyrir neðan Stóra-Botn og halda síðan upp eftir vegarslóðanum sem liggur með Hvalskarðsá. Hægt er að stikla ánna neðst en betra er að fara ofar og stikla hana þar sem hún greinist í tvær eða þrjá litlar kvíslar. Þaðan er haldið upp á fjallið suðvestan megin. Leiðin er mjög greið, en efst er brattinn mestur og þar er nokkuð stórgrýtt en auðvelt uppgöngu. Stuttur spölur er frá brún að hátindinum en þaðan er eitt fallegasta útsýni sem um getur.

Fara má sömu leið til baka eða niður af því norðvestan megin, fyrir ofan Glym. Þar sem áin kvíslast er auðvelt að vaða hana og ganga síðan vestan megin niður að bílastæðinu. Hins vegar er skemmtilegra að ganga niður með gljúfrinu austan megin. Þetta er nokkuð seinleg leið en ákaflega falleg. Fyrir framan gljúfrið er staður þar sem tveir sverir trjábolir hafa verið lagðir yfir ána og vír strengdur fyrir ofan þá. Þarna er hægt að stytta sér leið og sleppa við að ganga niður að göngubrúnni. Þessir trjábolir eru þó teknir af ánni að vetrarlagi.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Leggjabrjótur úr Botnsdal

Gönguleið Endastaður er annar en upphafs

Vegalengd 15 km

Göngutími 5 klst.

Landslag Á fótinn fyrri hluta leiðarinnar

Hækkun 200 m

Mesta hæð Um 450 m

Gráðun C, nokkuð löng gönguleið

Tengingar Leggjabrjótur frá Þingvöllum

Forn gönguleið frá Botnsdal í Hvalfirði, upp með Botnsúlum og að Svartagili í Þingvallasveit.

Þetta er mjög tilkomumikil gönguleið og falleg. Hún er löng en alls ekki erfið. Gengið er upp frá Stóra-Botni í Botnsdal og yfir Botnsá á göngubrú skammt frá bænum og þaðan er jeppaslóða fylgt. Landið hækkar talsvert fyrri hluta leiðarinnar en brattinn er lítill og jafn.

Nauðsynlegt er að stoppa öðru hvoru og líta til baka því útsýnið verður æ fegurra eftir því sem ofar dregur. Ekki minnkar það þegar upp er komið enda gengið framhjá Botnsúlum og Syðstasúla er ákaflega fallegt og tilkomumikil.

Frá Syðstusúlu er leiðin svolítið á undan fæti og skammt er þaðan að Svartagili í Þingvallasveit.

Óhætt er að mæla með Leggjabrjóti, hvort heldur lagt er upp úr Botnsdal eða frá Svartagili.

Þessi forna gönguleið liggur raunar allt að Almannagjá og þótti forðum ill yfirferðar, sérstaklega um mýrar undir Syðstusúlu.

Þar varð til fræg vísa er séra Jón Þorláksson orti er hesturinn Tunna festist og slitnaði hluti reiðings af honum:

Tunnan valt og úr henni allt

ofan í djúpa keldu.

Skulfu lönd og brustu bönd,

en botgjarðirnar héldu.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Hlaðhamar

Gönguleið Skoðunarstaður

Vegalengd 0 km

Göngutími 0 klst.

Landslag Slétt

Hækkun 0 m

Mesta hæð 0 m

Gráðun Engin

Tengingar Gönguleiðir í Botnsdal

Hlaðhamrar eru sjávarmegin örstutt frá gamla þjóðvegi og flokkast því frekar sem staður sem vert er að skoða frekar en gönguleið.

Hlaðhamar lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er um innanverðan Botnsvog. Ef ekki væri örnefnaskilti myndu fáir gera sér grein fyrir þessum stað sem hugsanlega hafði meira gildi fyrir þúsund árum en nú á dögum. Í Landnámu segir:

„Maður hét Ávangur, írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip …… og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar.“

Eftir að Hvalfjarðargöng komu til sögunnar hefur bílaumferð um Botnsvog stórminnkað og þess vegna er nú orðið óhætt að stoppa hjá Hlaðhamri, skoða hann og umhverfið án mikils ónæðis.

Áður lá vegurinn framhjá Hlaðhamri en nú sveigir hann fyrir voginn rétt áður en komið er að honum. Best er að aka að Botnsskála og síðan að Hlaðhamri eftir gamla veginum.

Margt hefur breyst frá því á dögum Ávangs hins írska. Enn er þó kjarr í Botnsdal en vart telst það skógur og seint mun takast að smíða skip úr viði sem fæst úr honum. Miklar eyrar eru nú þar sem hugsanlega hefur verið aðdjúpur vogurinn og Hlaðhamar er því ekki lengur vænlegur kostur fyrir þá sem hugsanlega vilja leggja skipum sínum í Botnsvogi.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Vestursúla

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd 6 km upp

Göngutími 2,5 klst.

Landslag Aflíðandi halli að fjallinu en brattara þar

Hækkun 1050 m

Mesta hæð 1089 m

Gráðun C, frekar erfið gönguleið

Tengingar Syðstasúla, Hvalfell, Í kringum Hvalfell, Glymur, Hvalvatn

Gengið er upp úr Botnsdal, eftir jeppaslóð að fjallinu og þar farið upp eftir hrygg sem stefnir upp að hæsta tindi. Sama leið til baka.

Botnsúlur eru mjög aðgengilegar úr Hvalfirði en einnig er algengt að fara á þær frá Svartagili í Þingvallasveit, sérstaklega Syðstusúlu, sjá nánar leiðarlýsingu á fjallið í kaflanum Við Þingvallavatn.

Hæsti hluti Botnssúlna er Syðstasúla, 1093 m. Nokkrum metrum lægri er Vestursúla, 1.086 m, þá Miðsúla, Súlnaberg og stakur ónefndur tindur.

Botnssúlur eru leifar af gömlu eldfjalli. Þær eru glæsileg og tignarleg fjöll hvaðan sem á þær er litið, – freisting  fjallgöngumanna og af þeim er mikið og fagurt útsýni.

Gengið er frá Stóra-Botni yfir göngubrúna á Botnsá og stefna er tekin á fjallið, upp eftir vegarslóðanum með Hvalsskarðsá og eftir Sandhrygg upp með fjallinu. Geysilega mikið útsýni er af Vestursúlu, bæði vestur um land, suður og norður inn á hálendið.

Milli Vestursúlu og Syðstusúlu er Súlnadalur og þar er Bratti, skáli Alpaklúbbsins. Afbragðs skíðafæri er að vetrarlagi í Súlnadal og nokkuð algengt að menn fari þangað á gönguskíðum eða fjallaskíðum.

Illfært er af Vestursúlu eftir fjallshryggjum út að Háusúlu, en af henni má ganga niður í Hvalskarð og þaðan aftur að Stóra Botni.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Staupasteinn

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd 1 km

Göngutími 0 klst.

Landslag Örlítil brekka að hólnum

Hækkun Um 30 m

Mesta hæð Á að giska 80 m

Gráðun A, létt leið á láglendi, hindrunarlaus

Tengingar Syðstasúla, Hvalfell, Í kringum Hvalfell, Glymur, Hvalvatn

Bílnum er lagt við gamla veginn undir Reynivallahálsi og gengið eftir honum með nesti í körfu og njóta svo þessa gamla áningarstaðar að Skeiðhóli.

Staupasteinn á Skeiðhóli er ásamt hólnum friðlýstur sem náttúruvætti. Hann er þekktur undir fleiri nöfnum, t.d. Steðji, Prestur eða Karlinn í Skeiðhól.

Þarna var forðum áningarstaður meðan hestar voru aðal fararskjótarnir og jafnvel lengur. Ekki er eins langt síðan þjóðvegur vélknúinna ökutækja lá um Hvalfjörð framhjá Skeiðhóli. Þá þótti rétt að stoppa og börn á öllum aldri reyndu að velta steininum sem þarna stendur að því er virðist svo ósköp tæpt. Síðar var vegurinn færður næstum því niður í sjávarmál, svo komu Hvalfjarðargöng og nú hafa margir gleymt Staupasteini. Þeir eru líka margir sem aldrei hafa heyrt af honum.

Staupasteinn, Skeiðhóll og nánasta umhverfi var friðlýst sem náttúruvætti árið 1974.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Hvalfjarðareyri

Gönguleið Fram og til baka eða hringur

Vegalengd 2 km hringur

Göngutími 1 klst.

Landslag Sléttlendi

Hækkun Engin

Mesta hæð Sjávarmál

Gráðun A, létt leið á láglendi, hindrunarlaus

Tengingar Syðstasúla, Hvalfell, Í kringum Hvalfell, Glymur, Hvalvatn

Ekið niður að Hvalfjarðareyri og gengið síðan niður og um eyrina eftir vild. Sama leið til baka.

Hvalfjarðareyri ber fljótlega fyrir sjónir þegar ekið er inn með Hvalfirði að sunnanverðu. Hægt er að aka niður á eyrina en hressilegra er að ganga um hana, leita að fallegum steinum, skoða umhverfið og njóta útiverunnar.

Eyrin hefur myndast á svipaðan hátt og ýmsar eyrar víða um land. Sjávarstraumar falla skáhallt að ströndinni og bera með sér sand og möl og smám saman verður til eyri.

Hafaldan hefur skolað mörgum fögrum steintegundum á land á Hvalfjarðareyri. Þekktastir munu vera baggalútar, hreðjasteinar öðru nafni. Baggalútar líta einkum út fyrir að vera samvaxnir kúlulaga steinar. Þeir geta verið marglitir, einkum rauðir, grænir eða gráir og finnast einkum í líparíti.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Meðalfell

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd Allt að 5 km

Göngutími 1 klst.

Landslag Nokkuð brött fjallshlíð

Hækkun 300 m

Mesta hæð 363 m

Gráðun C, nokkuð erfið gönguleið

Tengingar Staupasteinn, Syðstasúla, Hvalfell, Í kringum Hvalfell, Glymur, Hvalvatn

Talvert bratt upp, en um leið skemmtileg gönguleið á fallegt fjall í fallegu umhverfi.

Meðalfell er einkar fagurt fjall að sjá. Það stendur eitt stakt í miðri Kjós og stefnið er sem á skipi, sem stefnir í vestur. Góð gönguleið er upp „stefnið“, en eflaust eru þær fleiri, til dæmis upp suðausturhlíðina, „skutinn“.

Gönguleiðin upp vesturhlíðina er nokkuð brött en auðfarin. Um það bil einn kílómeters ganga er að hæsta hluta fjallsins frá uppgönguleiðinni.

Meðalfell er bratt á flestar hliðar, hamrarnir sem krýna það eru víða sundurskornir með giljum og gljúfrum, en fyrir neðan skriður. Útsýnið er mjög gott yfir Kjósina sem er einstaklega falleg hvert sem litið er. Þarna má glöggva sig á vænlegum gönguleiðum upp á hina fjölmörgu fjallsrana og múla er ganga norður úr Esju.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Vindáshlíð og Sandfell

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd 1 km upp

Göngutími 1 klst.

Landslag Bratt fjall og skriðurunnið

Hækkun 300 m

Mesta hæð 395 m

Gráðun B, stutt gönguleið

Tengingar Staupasteinn, Meðalfell, Hvalfell, Í kringum Hvalfell, Glymur, Hvalvatn

Áhugaverð gönguleið á sérkennilegt keilulagað fjall

Sandfell fyrir ofan Vindáshlíð er allfagurt keilulaga móbergsfjall en hlíðarnar eru skriðurunnar. Það stendur eins og því hafi verið tyllt ofan á Vindáshlíð, sem er úr öðru efni að því er virðist. Allt umhverfið er einstaklega fallegt. Þarna eru víða hamraborgir og kynjamyndir úr móbergi í Sandfellinu sjálfu. Nokkuð er um kjarr í hlíðinni.

Best er að ganga upp frá Vindáshlíð þar sem eru sumarbúðir KFUK og er best að ganga upp vestan megin.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Írafell

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd 1 km upp

Göngutími 1 klst.

Landslag Aflíðandi fell

Hækkun 160 m

Mesta hæð 261 m

Gráðun B, létt gönguleið og hindrunarlítil

Lítið fell sem vekur athygli vegna tengsla við drauginn Móra.

Írafell er lágt og ekki erfitt uppferðar. Það tengist Skálafellshálsi sem þrátt fyrir nafnið er mikið fjall og meira en helmingi hærra en Írafell. Það er vel gróið og  í hlíðum eru nokkur hamrabelti.

Best er að leggja bílnum fyrir ofan brúna yfir Laxá að Hækingsdal og Hlíðarási og ganga upp slakka sem liggur á hálsinn sunnan við fjallið.

Bærinn Írafell er vestan við fellið. Við þann bæ er draugurinn Írafellsmóri kenndur. Hann er einn þekktastur drauga og átti sínar bestu stundir um 1800 á Möðruvöllum í Kjós þar sem hann hrekkti fólk og skepnur uns hann fluttist að Írafelli.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

Þórufoss

Gönguleið Fram og til baka

Vegalengd Örstutt frá bílastæðinu

Göngutími 1 klst.

Landslag Slétt

Hækkun Óveruleg

Mesta hæð 150 m

Gráðun Engin

Þórufoss eru örstutt frá þjóðvegi og flokkast því frekar sem staður sem vert er að skoða frekar en gönguleið.

Þórufoss heitir foss í Laxá skammt fyrir neðan Stíflisdalsvatn. Hann er breiður og mikill um sig og má segja að hann sé meðal fallegustu fossa á höfuðborgarsvæðinu. Skilti er við veginn sem vísar að fossinum en þangað eru aðeins örfá skref.

Fossinn fellur niður svo til lóðrétt niður í breiðan hyl. Hann er um tólf metra hár, en hamraveggirnir tólf til tuttugu metra háir.

Þórufoss er á náttúruminjaskrá ásamt nánasta umhverfi. Þarna er vinsæll áningarstaður ferðamanna.

Heimild: Sigurður Sigurðsson/https://sigsigblog.wordpress.com/gonguleidir/

25 Gönguleiðir á Hvalfjarðarsvæðinu

Gönguleið 1 | Mógilsá og Esjuhlíðar
Gönguleið 2 | Kjalarnes
Gönguleið 3 | Saurbær á Kjalarnesi
Gönguleið 4 | Norðan Akrafjalls
Gönguleið 5 | Hvítanes við Grunnafjörð
Gönguleið 6 | Melabakkar
Gönguleið 7 | Ölver og Katlavegur
Gönguleið 8 | Hafnarskógur
Gönguleið 9 | Andakílsárfossar
Gönguleið 10 | Skorradalur og Síldarmannagötur
Gönguleið 11 | Umhverfi Draghálss
Gönguleið 12 | Saurbær á Hvalfjarðarströnd
Gönguleið 13 | Bjarteyjarsandur og Hrafneyri
Gönguleið 14 | Bláskeggsá og Helguhóll
Gönguleið 15 | Þyrilsnes
Gönguleið 16 | Kringum Glym
Gönguleið 17 | Botn Brynjudals
Gönguleið 18 | Fossárdalur og Seljadalur
Gönguleið 19 | Hvítanes í Hvalfirði
Gönguleið 20 | Hvammsvík
Gönguleið 21 | Hálsnes og Búðasandur
Gönguleið 22 | Meðalfell í Kjós
Gönguleið 23 | Vindáshlíð og Laxá í Kjós
Gönguleið 24 | Eilífsdalur
Gönguleið 25 | Hvalfjarðareyri

Getum við bætt efni þessarar síðu?