Hestamannafélagið Adam
Hestamannafélagið Adam, Kjós
Reiðleiðir - Kortasjá
Stjórn
Óðinn Elísson Klörustöðum, formaður
Netfang: odinn@fulltingi.is
Svanborg Magnúsdóttir Miðdal, gjaldkeri
Netfang: middalur@emax.is
Sigurður Guðmundsson Flekkudal, ritari
Netfang: flekkudalur@gmail.com
Elvar Ólafsson Dælusárvegi 13, meðstjórnandi
Netfang: elo9876@gmail.com
Sigurþór Gíslason Meðalfelli, meðstjórnandi
Netfang: medalfell@emax.is
Varamaður í stjórn:
Elís Guðmundsson
Skoðunarmenn reikninga:
Hlíf Sturludóttir Reykjavík
Samþykktir Adams
Lög
Hestamannafélagið Adam í Kjós.
I. Kafli.
Heiti og markmið félagsins.
1. gr.
Félagið heitir Adam. Heimili þess og varnarþing er í Kjósarhreppi. Félagið stefnir á aðild að U.M.S.K., L.H. og Í.S.Í. og verður háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.
2. gr.
Megin markmið félagsins er iðkun hestaíþrótta ásamt því að efla áhuga manna á hestum, stuðla að góðri meðferð þeirra, vinna að framgangi hestaíþrótta og gæta hagsmuna félagsmanna
Í samræmi við ofangreind markmið hyggst félagið vinna að eftirfarandi verkefnum:
1. Gangast fyrir námskeiðum og fræðslu um þjálfun og umhirðu hesta sem og þjálfunar knapa til almennrar reiðmennsku og einnig til keppni í hestaíþróttum.
2. Fá fagmenn í reiðmennsku og hrossarækt til fyrirlestrahalds.
3. Efna til sameiginlegra hestaferða og kynna reiðleiðir. Í félagsferðum skal reglusemi gætt svo vera megi börnum og unglingum til fyrirmyndar.
4. Vinna að reiðvegagerð í samvinnu við landeigendur, sveitastjórn og Vegagerð Ríkisins.
5. Koma upp áningarhólfum fyrir hestamenn.
6. Efna til keppni og sýninga í hestaíþróttum og kappreiðum eftir því sem áhugi er fyrir. Taka þátt í mótum og sýningum hjá samtökum hestamanna sem það er aðili að.
7. Að byggja upp nauðsynleg mannvirki vegna starfsemi félagsins, svo sem velli og félagshús.
II. Kafli.
Félagsaðild, félagsgjald.
3. gr.
Félagar geta allir orðið sem þess óska og hafa áhuga á hestum og eru reiðubúnir til þess að hlíta lögum og reglum félagsins. Ekki eru aðrar takmarkanir á þátttöku í félagsstarfi en þær sem ytri aðstæður kynnu að hamla. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn þess sem tekur afstöðu til hennar. Í umsókn skal greina nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda. Umsókn skal borin undir félagsfund til samþykktar með einföldum meirihluta.Stjórn félagsins getur samþykkt félagsaðild til bráðabirgða.
4. gr.
Aðalfundur ákveður árlegt félagsgjald. Unglingar 16 ára og yngri greiða lægra gjald eftir ákvörðun aðalfundar. Félagsgjald skal greiða fyrir 1. mars ár hvert. Félagar 70 ára og eldri og 13 ára og yngri greiða ekki félagsgjald. Félagsmenn 13 ára og yngri hafa almennt ekki atkvæðisrétt á aðalfundum og almennum félagsfundum. Stjórn félagsins getur ákveðið undanþágur frá þessu ákvæði. Félagsmenn, sem eru ekki fullra 17 ára, hafa ekki atkvæðisrétt um málefni sem hafa í för með sér meiriháttar fjárskuldbindingar samkvæmt úrskurði stjórnar. Þeir hinir sömu hafa ekki heldur kjörgengi og kosningarrétt til ársþings L.H.
5. gr.
Félagar sem skulda félagsgjöld frá fyrra ári hafa eigi atkvæðisrétt á fundum félagsins. Þeim er óheimilt að koma fram fyrir það út á við. Þeim sem ekki greiða félagsgjöld tvö ár í röð má víkja úr félaginu. Brjóti félagi alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins, er stjórn þess heimilt að víkja honum úr því. Félaga sem vikið er úr félaginu er heimilt að áfrýja þeirri ákvörðun til aðalfundar. Nýr félagi skal ekki njóta félagsréttinda fyrr en hann hefur greitt árgjald yfirstandandi starfsárs.
III. Kafli.
Stjórn, aðalfundur, fjármál.
6. gr.
Stjórn félagsins skipa þrír menn: formaður, varaformaður og meðstjórnandi, sem kosnir eru á aðalfundi félagsins. Formann ber að kjósa einan sér til tveggja ára. Aðra stjórnarmenn skal kjósa til eins árs í senn. Einnig skal kjósa tvo varamenn til eins árs í senn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Á aðalfundi skal kjósa til eins árs í senn tvo skoðunarmenn til þess að yfirfara reikninga félagsins.
7. gr.
Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er honum að boða fund ef tveir stjórnarmanna óska þess. Kosinn ritari gegnir ritarastörfum og heldur gerðabók. Gjaldkeri færir bókhald fyrir félagið, innheimtir félagsgjöld og greiðir reikninga í samræmi við ákvörðun stjórnar. Við innheimtu félagsgjalda er gjaldkera heimilt að ráða sér til aðstoðar aðra félagsmenn, enda beri hann ábyrgð á því. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli manna. Stjórn félagsins er heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra / starfsmann til að sjá um daglegan rekstur.
8. gr.
Stjórn félagsins ber að varðveita öll skjöl og gögn er geyma heimildir um störf félagsins, svo sem félagaskrá, bókhaldsgögn og bréf. Einnig ber að halda skrá yfir öll hross sem sýnd eru á mótum félagsins eða keppa á kappreiðum þess.
9. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Þó skal aðalfundi gerð grein fyrir rekstri fyrstu átta til níu mánuði ársins, sem er að líða. Stjórn félagsins ber alla ábyrgð og hefur yfirstjórn á fjárreiðum félagsins og einstakra deilda og nefnda. Deildum og nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án samþykkis stjórnar félagsins. Reikningar félagsins skulu samdir af gjaldkera og áritaðir af stjórn og kjörnum skoðunarmönnum félagsins. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi til skoðunar í eina viku fyrir aðalfund. Hefja skal innheimtu félagsgjalds eigi síðar en um áramót og eindagi þess er 1. mars.
Aðalfund skal halda í október ár hvert. Til hans skal boðað með minnst viku fyrirvara með auglýsingu í dagblaði, útvarpi eða bréflegri tilkynningu. Í fundarboði skal gera grein fyrir dagskrá og tillögum að lagabreytingum, sé um þær að ræða.
Dagskrá aðalfundar sé:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Lesin upp nöfn þeirra, sem æskt hafa inngöngu í félagið á árinu, og leitað samþykkis fundarins.
3. Formaður leggur fram og skýrir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.
4. Gjaldkeri leggur fram og skýrir reikninga félagsins.
5. Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikningana.
6. Formenn nefnda leggi fram og skýri skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári.
7. Kosning formanns til tveggja ára.
8. Kosning tveggja meðstjórnanda og tveggja varamanna til eins árs í senn.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna.
10. Tillaga lögð fram til samþykktar um árgjald næsta árs.
11. Lagabreytingar.
12. Önnur mál sem félagið varðar.
Kosningar skulu vera leynilegar ef minnst þriðjungur atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess.
10. gr.
Auk aðalfundar er stjórn félagsins heimilt að boða til almennra félagsfunda, svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að halda félagsfund ef þriðjungur félagsmenn óskar þess skriflega. Boða skal almenna félagsfundi með sama hætti og segir í 9. gr.
11. gr.
Formaður setur fundi og stýrir þeim eða felur kjörnum fundarstjóra fundarstjórn. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundum félagsins nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg ef þess er óskað og ef meirihluti fundar samþykkir.
12. gr.
Stjórn félagsins skipar í nefndir eftir þörfum, og skulu nefndir kjósa sér formann á fyrsta fundi sínum. Nefndir skulu skila skýrslum til stjórnar.
13. gr.
Stjórn félagsins er þá aðeins heimilt að kaupa eða selja fasteignir, byggja hús eða taka ákvarðanir, sem hafa í för með sér verulegar fjárskuldbindingar, að fyrir liggi samþykki aðalfundar eða félagsfundar.
IV. Kafli.
Um lagabreytingar.
14. gr.
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi. Þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að breyting nái fram að ganga. Í aðalfundarboði skal þess sérstaklega getið að tillaga til lagabreytinga verði lögð fram og efni hennar lýst. Lagabreytingar, sem félagar kunna að vilja bera fram skulu berast stjórn og/eða laganefnd félagsins fyrir 31. desember.
V. Kafli.
Um félagsslit.
15. gr.
Ef slíta á félaginu verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst þrír fjórðu skráðra félaga enda greiði tveir þriðju fundarmanna því atkvæði. Ef ekki mætir tilskilinn hluti félagsmanna má boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt, ef tveir þriðju hlutar fundarmanna greiða því atkvæði. Verði félaginu slitið skulu eignir þess afhentar Kjósarhreppi til vörslu, þar til nýtt félag með svipuðum markmiðum og Hestamannafélagið Adam hafði, verður stofnað í Kjós. Skulu eignirnar þá afhendast því félagi til eignar, enda hafi sveitarstjórn kannað vilja og getu hins nýja félags til að takast á hendur slíkan rekstur.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 2 október 2007 og öðlast gildi þegar í stað.
Breytingar samþykktar á aðalfundi félagsins 21 október 2008.
Eldraefni
7 mars 2009
Adam í Kjós stóð fyrir slysalausu tjarnartölti á Eyjatjörn á laugardaginn. Af tillitsemi við önnur mót var mót þetta haldið í kyrrþey, en þetta var eiginlega upphitunarmót fyrir megaístöltið sem haldið verður á Meðalfellsvatni um leið veðurguðinn stendur við sitt. Þátttaka var meiri en vonast var til og kom það illa niður á sumum Adamsfélögum sem ætluðu sér stóra hluti á móti þessu, þó aðrir hafi blómstrað. Aðstæður voru mjög góðar og veðrið frábært eins og alltaf í Kjósinni. Hér neðar á síðunni má sjá fullt af myndum frá þessu fallega móti.
Úrslit urðu eftirfarandi:
Sigurvegari í barnaflokki var hin bráðefnilega Harpa S. Bjarnadóttir, Herði, á Dögun frá Gunnarsstöðum.
Unglingaflokkur:
1. Leó Hauksson á Ormi frá Sigmundarstöðum.
2. Lilja Ósk Alexandersdóttir á Þór frá Þúfu.
3. Steinunn Reynisdóttir á Stakki frá Þúfu.
Kvennaflokkur:
1. Guðríður Gunnarsdóttir á Fróða frá Hnjúki.
2. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir á Sin frá Miðdal.
3. Katrín Sif Ragnarsdóttir á Sprota frá Múla.
Karlaflokkur.
1. Bjarni Kristjánsson á Vöku frá Þorláksstöðum.
2. Orri Snorrason á Mörtu frá Morastöðum.
3. Haukur Þorvaldsson á Hrímey frá Kiðafelli.
Bestu kveðjur
Ískappreiðanefnd Adams.´
31 janúar 2009
Fjölbreytt vetrarstarf framundan hjá Adam.
Þá er komið að því að kynna fjölbreytta og skemmtilega vetrardagskrá hjá hinu megaöfluga hestamannafélagi sveitarinnar. Fyrir áramótin stóð Adam fyrir fræðslukvöldi með Erling Sigurðssyni, sem tókst mjög vel og ekki var folaldasýningin í Boganum síðri.
Reiðnámskeið.
Ef næg þátttaka fæst mun Adam standa fyrir almennu reiðnámskeiði í lok febrúar eða byrjun mars. Kennari verður hinn eldhressi reiðkennari Erling Sigurðsson. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru beðnir um að láta vita af því fyrir 10. febrúar, en það þarf 8-10 þátttakendur svo hægt sé að standa fyrir námskeiðinu sem yrði haldið í Boganum. Þátttakendum yrði skipt í 2 hópa. Áhugasamir hafi samband við Bjössa á Þúfu sem fyrst í síma 895-7745 eða senda póst á bjossi@icelandic-horses.is Námskeiðsgjald verður kr. 22.000
Reiðvegagerð.
Stjórnin hefur ákveðið að halda áfram með reiðvegagerðina. Næsti er að klára reiðveginn frá Eyri norður að vegi númer 460, Miðdalsvegi/Eilífsdalsvegi. Félagið er þegar farið að undirbúa lagningu reiðvegarins. Þeir sem eru til í að vinna með Adam að lagningu þessa leggs eru beðnir að hafa samband við Pétur formann. Stefnt er að því að fara í þetta sem fyrst. Örstutt í reiðvegaefnið.
Vetrarleikar.
Félagið hefur ákveðið að standa fyrir ískappreiðum um leið og aðstæður leyfa.
Laugardaginn 14 febrúar verður haldið töltmót í Boganum að Þúfu. Mótið er ætlað fyrir hestamenn hér í Kjósinni eingöngu. Við hvetjum hestamenn í sveitinni til að taka þátt og hafa gaman að.
Vetrarleikar verða haldnir laugardaginn 11 apríl á Flugbrautinni.
Firmakeppni Adams verður haldinn 1 maí.
Með vorinu hugum við svo að gæðingamóti og jafnvel úrtöku fyrir Fjórðungsmótið á Kaldármelum, sem 16 hestamannafélög standa að. Adamsfélagar eru hvattir til að gera sérstaklega vel við kynbótahross sín og mæta sterkir inn á mótið.
Kjósverjar, takið þátt í skemmtilegu félagsstarfi. Ekkert kreppukjaftæði, Adam er í Paradís.
Stjórn Adams.
3. apríl 2008
Úrtaka fyrir Landsmót hjá Adam.
Adam í Kjós heldur gæðingakeppni og úrtöku fyrir Landsmót Hestamannafélaga að Miðfossum 31. maí n.k.
Adam verður í hópi 5 félaga sem halda sameiginlegt mót. Þau eru auk Adams; Dreyri, Faxi, Glaður og Snæfellingur.
Adamsfélagar! Þjálfið nú að kappi.
Það er margt á prjónunum hjá Adam sem verður auglýst fljótlega.
Stjórn Adams.
4. október 2007
Hestamannafélagið Adam í Kjós leitar nú eftir aðstöðu fyrir starfsemi félagsins. Er einhver eða einhverjir reiðubúnir til að leggja til land undir skeiðvöll? Sjá mætti fyrir sér að í framtíðinni yrði byggt upp hesthúsahverfi einhverstaðar í Kjósinni og gæti það skapað viðskiptatækifæri fyrir viðkomandi, td í formi sölu lóða undir hesthús. Áhugasamir mættu endilega setja sig í samband við stjórn Adams:
Pétur B Gíslason Hvammsvík s 893 1791 petur@hvammsvik.is
Björn Ólafsson Þúfu s 895 7745 bjossi@icelandic-horses.is
Haukur Þorvaldsson s 848 7100 haukur@emax.is