Fara í efni

Sveitarstjórn

268. fundur 15. desember 2022 kl. 15:00 - 16:15 stóra fundarsal í Ásgarði
Nefndarmenn
  • Jóhanna Hreinsdóttir (JH) oddviti
  • Sigurþór Ingi Sigurðsson (SIS) nefndarmaður
  • Jón Þorgeir Sigurðsson (JÞS) nefndarmaður
  • Regína Hansen Guðbjörnsdóttir (RHG) nefndarmaður
  • Þórarinn Jónsson (ÞJ) nefndarmaður
Starfsmenn
  • Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Þorbjörg Gísladóttir Sveitarstjóri
Dagskrá
Dagskrá
Oddviti setti fundinn, stjórnaði honum og leitaði afbrigða til að taka eftirtalin mál á dagskrá fundarins:
Mál nr. 2212014 Umsókn um styrk til reiðvegagerðar.
Mál nr. 2210027 Álagning gjalda.

1.Álagning gjalda og aðrar forsendur fjárhagsáætlunar 2023

2210027

Í ljósi breyttra forsenda er álagning gjalda endurskoðuð og lögð fram að nýju í sveitarstórn. Gerð er breyting í takt við hækkun á neysluverðsvísitölu og breyting á útsvarsprósentu og fasteignaálagningu.

JH, JÞS, SIS, ÞJ samþykkja álagningu gjalda, RHG situr hjá.

2.Fjárhagsáætlun 2023-2026

2210012

Tekin er til síðari umræðu fjárhagsáætlun Kjósarhrepps fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026.
Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B- hluta verði 447.245 m.kr. og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði 376.833 m. kr. Jákvæð rekstrar niðurstaða fyrir fjármagnsliði er þá 49.229 m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir neikvæðir sem nemur 40.696 m.kr., þannig að áætluð rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 8.533 m.kr.
Áætluð fjárfesting Hitaveitunnar í varanlegum rekstrarfjármunum er áætluð 24 m.kr.
RHG óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun: Kjósarhreppur er ört stækkandi sveitarfélag og hefur íbúum fjölgað töluvert á árinu enda hefur aðsókn eftir búsetu hér aukist. Á síðasta kjörtímabili var farið í fjárfestingar til framtíðar, fjárfestingu til að gera öðrum kleift að flytja í sveitarfélagið okkar. Þessi fjárfesting getur skilað sveitarfélaginu auknum tekjum og hagkvæmri uppbyggingu.
Í fjárhagsáætlun er ekki gert ráð fyrir neinni uppbyggingu eða bættri þjónustu, ekki er hugað að barnafólki, eldri íbúum og þeim tekjulægri með þeim skattahækkunum sem lagðar eru fram.
En með hagræðingu og endurskipulagningu væri hægt að komast hjá svo bröttum skattahækkunum. Þær ábendingar og athugasemdir sem gerðar voru við gerð fjárhagsáætlunar fékk engan hljómgrunn hjá meirihluta.
Í framlagðri fjárhagsáætlun 2023 og greinargerð er gert ráð fyrir frekari hækkun á sorphirðugjaldi og rotþróahreinsun eða um 21% sem er meira en áður var lagt til í samþykkt á fundi sveitarstjórnar nr. 266 þann 1. nóvember síðast liðinn, en þar var gert ráð fyrir 4,6%-4,9% hækkun. Einnig er gert ráð fyrir að útsvarið hækki úr 13,75% í 14%.
Af þessum framangreindum ástæðum sit ég hjá við afgreiðslu á framlagðri fjárhagsáætlun 2023-2026.

A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun: A-Listinn leggur áherslu á sýnilega og ábyrga fjármálastjórn . Með þeirri fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 sem nú er lögð fram er verið að bregðast við hallarekstri sveitarfélagsins á árinu 2021 og áætluðum hallarekstri á yfirstandandi ári. Útlit er fyrir að fjárhagsáætlanir sem gerðar voru fyrir árið 2022 muni ekki standast, tekjur reynst mun lægri á árinu en áætlað var og kostnaður hærri.

Við gerð fjárhagsáætlunarinnar er sveitarstjórn skylt að tryggja að Kjósarhreppur geti rækt skyldur sínar og sinnt lögboðinni þjónustu. Tryggja þarf sjálfstæði sveitarfélagsins með því að rekstur standi undir sér með aðhaldi í rekstri og skynsamri tekjuöflun. Allar forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 hafa verið teknar saman í greinargóða skýrslu sem aðgengileg verður öllum íbúum sveitarfélagsins.

JH, JÞS, SIS, ÞJ samþykkja fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2023-2026 við seinni umræðu, RHG situr hjá.
Sveitarstjórn þakkar sveitarstjóra og starfsfólki fyrir vinnu sína við fjárhagsáætlanagerðina.




3.Áætlun um frávikagreiningar til sveitarstjórnar.

2212010

Sveitarstjórn ber ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja, sbr. 77. gr.sveitarstjórnarlaga og tekur ákvarðanir um verulegar skuldbindingar sveitarfélagsins til lengri tíma. Það er því mikilvægt að sveitarstjórn hafi upp-lýsingar um stöðun á rekstri sveitarfélagsin og sé upplýst með reglulegum hætti.
Lagt er til að sveitarstjóri leggi fram frávikagreiningar á rekstri sveitarsjóðs fyrir hvern ársfjórðung í fyrsta skipti í maí 2023 og svo með reglulegum hætti eftir það.
Sveitarstjórn fagnar áætluninni og telur þetta byggja undir örugga fjármálastjórn.

Sveitarstjórn staðfestir áætlunina.


4.Umsókn um styrk vegna skötuveisli

2212011

Lögð er fram til umfjöllunar styrkumsókn frá Kjósin ehf. um styrk að upphæð 200.000 vegna árlegrar skötuveislu í Félagsgarði á aðventunni.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina.

5.Umsókn um styrk til reiðstígagerðar 2022

2212014

Lögð er fram til umfjöllunar styrkumsókn til reiðstígagerðar frá Hestamannafélaginu Adam. Sótt er um 1000.000 eins og á síðasta ári.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina.

6.Tillaga að breyttum fundartíma sveitarstjórnar í janúar 2023

2212013

Lagt er til næsti fundur sveitarstjórnar Kjósarhrepps verði haldinn 10. janúar 2023.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna.

7.Fundargerð umhverfisnefndar

2212012

Fundargerð Umhverfisnefndar lögð fram til staðfestingar.
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir fyrir sitt leyti tillögu að lofstslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Sveitarstjóra er falið að skrifa undir yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf vegna stefnunnar.

Fundi slitið - kl. 16:15.