Fara í efni

Veitunefnd

506. fundur 11. nóvember 2014 kl. 11:23 - 11:23 Eldri-fundur

Veitunefnd Kjósarhrepps, fundur nr. 4

Dags: 11. nóvember 2014

Í Ásgarði, kl. 16

 

Mættir nefndarmenn:
Sigurður Ásgeirsson (SÁ) formaður, Jóhanna Hreinsdóttir (JH), Óðinn Elísson (ÓE), Jón Gíslason (JG) og Pétur Guðjónsson (PG).

Sigríður Klara Árnadóttir (SKÁ) starfsmaður nefndarinnar og ritari.

Einar Guðbjörnsson (EG) boðaði forföll og því var 1.varamaður Pétur Guðjónsson (PG) boðaður

 

Dagskrá fundar

1.    Samgöngumál

a.    Sigurður formaður upplýsti um stöðu nýframkvæmda hjá Vegagerðinni, engar nýframkvæmdir eru á fjárlögum árs 2015. Einungis verður sinnt lágmarks viðhaldi. Lagfæring á Kjósarskarðsvegi flokkast undir nýframkvæmdir og á fjárlögum árs 2016 er áætlað að setja 300 milljón kr í veginn skv. staðfestum upplýsingum frá Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingmanni SV-kjördæmis.
Afgreiðsla: Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að fylgjast áfram vel með og minna á sig. Ákveðið var að gera þá kröfu að fá teljara í heilt ár, á Kjósarskarðsveg til að sýna fram á raunverulega notkun vegarins. Vegagerðin á Selfossi sér um þau mál og mun Sigurður formaður hafa samband við þá

b.    Lögreglan kom í sína árlegu heimsókn til hreppsnefndar fimmtudaginn 6.nóvember, fór yfir m.a. samantekt á slysum, innbrotum, viðhorfi fólks til lögreglu og kynnti stórt forvarnarverkefni varðandi heimilisofbeldi sem lögregla í samvinnu við félagsmálayfirvöld er að vinna. Umræður voru teknar í lok heimsóknar og farið m.a. yfir umferðarmál í Kjósarhreppi. Tekið var vel í ósk hreppsnefndarmanna að framkvæma hraðamælingar við Meðalfellsvatnsveg næsta sumar til að sannreyna ágæti þeirra aðgerða sem gripið var til að lækka umferðarhraða þar.
Afgreiðsla: Sigríður Klara mun fylgja því máli eftir við lögregluna á Stöð 4, en undir þá stöð heyra Kjósarhreppur, Kjalarnes, Mosfellsbær, Grafarholt, Grafarvogur, Norðlingaholt og Árbær.

 


 

2.    Hitaveitumál

a.    Staða og næstu skref varðandi hitaveitu í Kjósarhreppi.
Þau verkefni sem eru nú í forgangi:

                                          i.    Fá nýtingarleyfi samþykkt - er í afgreiðsluferli hjá Orkustofnun

                                        ii.    Uppfæra forhönnun á veitunni í ljósi nýrra forsenda. Búið er að bora nýja holu sem gefur heitara vatni en gert var ráð fyrir.

                                       iii.    Uppfæra viðskiptaáætlun út frá uppfærðum kostnaðartölum til að geta svarað væntanlegum viðskiptavinum betur um áætlaðan kostnað vegna tengigjalda og notkunar.

                                       iv.    Viðræður hafnar vegna fjármögnunar. Bankar, fjárfestar, lífeyrissjóðir o.s.frv. – lánsupphæð skiptir gríðarlega miklu máli

                                        v.    Sækja um styrki. Halda áfram á þrýsta á fjárlaganefnd Alþingis og þingmenn SV-kjördæmis, með vísan í fordæmi.

                                       vi.    Fá kostnað á lagningu ljósleiðara

                                     vii.    Taka í kjölfarið ákvörðun um framhaldið á lagningu hitaveitu

                                    viii.    Fara í úboð á fullhönnun veitunnar ef ráð þykir

b.    Bókun frá síðasta hreppsnefndarfundi var tekin fyrir varðandi stofnun einkahlutafélags.
Afgreiðsla: Einróma ályktun frá nefndinni:
Veitunefnd Kjósarhrepps telur að stofnun einkahlutafélags sé tímabær í bókhaldslegum tilgangi. Veitunefnd telur farsælast að leggja áherslu á vel ígrunduð og vönduð vinnubrögð. Þetta verkefni snýst um hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess. Klára þarf þau verkefni sem liggur á að klára áður en stóra ákvörðunin er tekin hvort Kjósarhreppur fari af stað í hitaveituframkvæmdir eða ekki.
Veitunefnd óskar eftir samþykki hreppsnefndar að halda áfram þeirri undirbúningsvinnu sem er í gangi.

 

Fundi slitið: kl. 17:45

Sigríður Klara Árnadóttir