Umhverfisnefnd
Efni fundarins
- Staða á gámaplani: Farið var yfir stöðuna á gámaplani með Birni Þór nýjum starfsmanni gámaplansins sem hefur störf um næstu mánaðarmót. Allir voru sammála um að minnka umfang óflokkaðs úrgangs á planinu eins og mögulegt væri og spara með því urðunargjöld.
- Gjaldtaka á gámaplani Rætt var um gjaldtöku á Gámaplani og oddviti kynnti fyrir nefndarmönnum gjaldtökuflokka og verð hjá Mosfellsbæ. Allir fundarmenn samþykktu að leggja til við hreppsnefnd að taka upp flokka og svipaða verðskrá og er hjá Mosfellsbæ og fela oddvita að láta útbúa skilti með upplýsingum um gjaldflokkana og verð sem verði sett upp við gámaplan. Nefnd vill ítreka að hjá einstaklingum er aðeins ætlað að taka gjald fyrir úrgang frá framkvæmdum.
- Opnun á gámaplaninu. Óskir hafa komið upp að endurskoða opnunartíma gámaplansins og hafa opið lengur á miðvikudögum og telur nefndin sjálfsagt að verða við því.
- Staða sorpmála á sumarhúsasvæðum. Sett verður upp flokkunarstöð fyrir plast, pappír og almennt sorp við sumarhúsasvæðið Valshamar innan við hlið og sett þar upp skilti með leiðbeiningum og leiðarlýsingu á gámaplan fyrir annan úrgang. Nefndin telur að ekki sé forsvaranlegt að setja upp flokkunarstöðvar á svæðum sem ekki eru lokuð fyrir óviðkomandi umferð. Nefndin mun funda fljótlega með forsjármönnum sumarhúsasvæðanna.
- Bæklingur um flokkun. Unnið er að honum í samstarfi við Terru og þegar hann er tilbúinn mun nefnd fylgja honum eftir með heimsóknum. Rætt var um förgun á lífrænum úrgangi og voru nefndarmenn sammála um að hreppsbúar og sumarhúsaeigendur væru hvattir til að nýta hann til moltugerðar.
- Endurnýjun skilta: Nefnd var sammála um að leggja til við hreppsnefnd að vinnu við endurnýjun skilta við Hvítanes og Hvalfjarðaeyri yrði flýtt sem fyrst en þau eru orðin illa farin.