Rit-og útgáfunefnd
Rit- og útgáfunefnd – fundargerð 28. október 2011
Nefndin kom saman í Ásgarði föstudaginn 28. október kl 16:00.
Mættir voru Sr. Gunnar Kristjánsson, Pétur Lárusson og Ólafur Engilbertsson sem ritaði fundargerð. Gunnar S. Óskarsson (GSÓ) mætti einnig á fundinn.
Eina málið á dagskrá var að ræða framvindu ritunar á byggðarsögu Kjósarhrepps frá miðri 19. öld til 1960 sem Gunnar S. Óskarsson ritar.
GSÓ lagði fram drög að inngangi. Þar er gert ráð fyrir að byggðarsagan nái aftur til 1850 en ekki 1875 eins og tilgreint er í samningi. Í innganginum eru tilgreind sýslu- og hreppamörk. Rætt var um að hafa þá lýsingu þannig að hún sé í samræmi við opinber gögn. Rætt var um efnistök; að megináhersla verði á stjórnsýslusögu; að tæknisaga, félags- og hagsaga leiki jafnframt stórt hlutverk, en einnig verði dregin fram sérstaða Kjósarinnar. GSÓ nefndi möguleika á einsöguköflum sem væru ekki inni í meginfrásögninni en settir með, aðgreindir. Heildarsagan verði ofar einsögunni. Meðal annars mætti byggja á bréfum og gögnum um félagsmál sem væru til í Ásgarði um t.d. Bræðrafélagið. Rætt var um hvort jarðaskrá og ábúendatal yrði að vera með, en um það var rætt við undirritun samnings. GSÓ telur heildaryfirlit jarða og ábúenda geta orðið of yfirgripsmikið (sjá bókina Kjósarmenn). Finna þarf aðferð til þess að þessi þáttur verksins verði ekki of stór í hlutfalli við annað efni. Rætt var um bjartsýnisskeiðið um aldamótin 1900, framfaramál í samgöngum og skólamálum, stofnun og starfsemi ungmennafélags, kvenfélags og veiðifélags og frumkvöðlastarf í landbúnaði og laxeldi, kynbætur búfjár og framfarir í verkmenningu o.fl. GSÓ hefur tekið nokkur viðtöl við sögufróða Kjósverja og hefur hreinritað þrjú þeirra sem hann hyggst senda fljótlega til yfirlestrar. Rætt var um að GSÓ léti vita ef hann þyrfti aðstoð við skráningu og öflun gagna. GSÓ hyggst athuga með samstarf við námsmenn við skráningu. Ákveðið að stefna að næsta fundi í byrjun febrúar. GSÓ hyggst þá vera tilbúinn með yfirlit yfir uppbyggingu verksins. Hann sagði samráð við ritnefnd verða með þeim hætti sem tilgreint er í samningi, en undirbúningur verksins hefði verið tímafrekur og ekki kallað á samráð fyrr en nú. GSÓ nefndi að verklokum muni seinka frá því sem gert var ráð fyrir í samningi. Rætt um að verkinu verði að vera lokið í síðasta lagi vorið 2014.
Fundi slitið kl 18.00.