Orkunefnd
Kjós 7. janúar 2014.
Fyrsti fundur Orkunefndar árið 2014.
Mættir voru allir nefndarmenn, Einar, Jón og Óðinn. Þá mætti Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, auk Guðmundar Karls og Kjartans frá Ræktunarsambandi Skeiða og Flóa. Kristján fór yfir mælingar og útskýrði forsendur fyrir þeirri staðsetningu sem hann hefur lagt til fyrir nýja borholu. Ákveðin var staðsetning á borstæði fyrir nýja borholu að ráði Kristjáns. Komið var við á holu nr. 19 og aðstæður kannaðar.
Fundi var síðan framhaldið í Ásgarði.
Farið var yfir næstu skref við hitaveituframkvæmdir. Kristján fór yfir vænlegustu kosti í stöðunni. Fram kom að Kristján vill gera eina hitamælingu til í holu 19 og niðurstaða þeirrar mælingar er forsenda fyrir því hvort ráðist verður í að bora nýja holu strax eða hvort skynsamlegra er að dýpka fyrst holu 19.
Ef mæling í holu 19 verður jákvæð að mati Kristjáns leggur Orkunefnd til við sveitarstjórn að holan verði dýpkuð niður í 1000-1200 metra áður en nokkuð annað verði gert. Ef hins vegar niðurstaða mælingarinnar verður neikvæð leggur Orkunefnd til við sveitarstjórn að hafist verði handa við að bora nýja holu.
Mæling á holu 19 verður gerð í næstu viku og þegar niðurstaða liggur fyrir getur sveitarstjórn tekið upplýsta ákvörðun um næsta skref hitaveituframkvæmda.
Guðmundur Karl hefur upplýst nefndina um að þeir verði tilbúnir til að hefja borun um næstu mánaðarmót, janúar /febrúar. Ef niðurstaða verður að byrjað verði á nýrri holu þarf að gera veg að holustæðinu og útbúa plan fyrir borinn og annan búnað sem nýta þarf við framkvæmdina.