Orkunefnd
Ár, 2008 þann 23. apríl er haldinn fundur í Samgöngu-og orkunefnd Kjósarhrepps.
Mættir eru Hermann Ingólfsson, Gunnar Leó Helgason og Jón Gíslason. Þá sat fundinn Sigurbjörn Hjaltason oddviti sem ritaði fundagerð.
1.mál. Jarðhitaleit í Kjósarhreppi.
Formaður lagði fram skýrslu Íslenskrar orkurannsóknar eftir Kristján Sæmundsson, unna fyrir Kjósarhrepp.
Í skýrslunni kemur fram:
Jarðhiti er á nokkrum stöðum í Kjós. Tveir staðir eru í Brynjudal, sá þriðji innan við Fremra-Háls, suðaustast í sveitinni, rúmlega 30°C heit laug. Fjórði staðurinn er í hlíð innan við Möðruvelli, rúmlega 15°C heit volgra. Með hitastigulsborunum hefur fundist heitt vatn á tveim stöðum öðrum, heima við bæ á Fremra-Hálsi, rúmlega 100°C heitt vatn, og í Hvammsvík, rúmlega 80°C heitt vatn. Leitað hefur verið eftir því við Orkuveitu Reykjavíkur (eiganda Hvammsvíkurholu) að leiða heitt vatn í Kjósina eða hluta hennar þaðan, en það hefur ekki verið talið hagkvæmt til þessa. Áhugi er því á að kanna möguleika á heitavatnsöflun í eða nærri þéttbyggðasta hluta sveitarinnar. Til þess þarf rannsóknir og þar hafa gefist best hitastigulsboranir og leit út frá holum með háum hitastigli.
Allmargar grunnar borholur eru í sveitinni, bæði hitastigulsholur, flestar boraðar fyrir 20 árum, og kaldavatnsholur fyrir sumarbústaði, en sumar af þeim nýttust til að ákvarða hitastigul. Meðfylgjandi kort sýnir hvar þær borholur eru sem sýndu trúverðugan stigul. Svæðislægur hitastigull er óvenjuhár á þessu svæði öllu, þ.e. á bilinu 120-130°C/km. Eiginleg hitafrávik, þar sem stigullinn hleypur upp í 200 - >300°C/km, koma hvergi fram líkt og gerðist bæði í Hvammsvík og á Fremra-Hálsi. Hæstu gildin í miðhluta sveitarinnar ná um 160°C/km (sjá kort). Þegar beitt er hitastigulsborunum í jarðhitaleit er við það miðað að hver hola gefi vísbendingu á svæði með 800 m radíus umhverfis holuna. Ástæða væri til að leita nánar út frá þrem slíkum holum og eru borstaðir merktir á kortið. Auk þeirra er lagt til að ein hola verði boruð norður af volgrunni á Möðruvöllum, en hún er jafnframt í suðvesturstefnu af Sandfelli, ungri gosstöð á Reynivallahálsi. Alls gæti hér orðið um að ræða 6-7 borholur. Þær þurfa að ná um 50 m niður í klöpp, en heldur dýpra verði vart við vatnsæðar í þeim. Finnist verulega hærri hitastigull á einhverjum þessara staða þyrfti að fylgja því eftir með fleiri hitastigulsholum.
Nokkur óvissa er um raunverulegan hitastigul í borholum við austurenda Meðalfellsvatns og norðan við Eyjatjörn. Allt eru það kaldavatnsholur (sjá meðfylgjandi hitamælingar). Holurnar við Vatnið voru boraðar ofan í rúmlega 30 m þykk setlög og sýna ekki hitastigul fyrr en kemur niður úr þeim. Rennsli er úr tveim holum, EJ-3 og EJ-4, en þær sýna hæsta stigulinn. Óvíst er þó hvort því megi treysta og þarf að fá skorið úr því. Því er lagt er til að byrjað verði á borholu í nánd við Eyjatjörn og næsta hola boruð við Kjósarkaffi, ofan við afleggjarann að Eyjum. Þriðja holan kæmi svo í nánd við Möðruvelli. Það ylti svo á útkomunni úr þessum fyrstu holum hvar haldið yrði áfram. Ein af þessum holum útheimtir allmikla fóðringu, jafnvel kringum 20 metra langa (Kjósarkaffi).
Borstaðirnir hafa ekki verið ákveðnir nákvæmlega, en á kortinu sem hér fylgir eru þeir sýndir með fyrirvara um að hnika megi til eftir aðstæðum. Þeir eru allir nærri vegum. Dýpi á fast berg á flestum stöðunum má áætla innan við 5 m, en á tveim stöðum má reikna með meira fóðringardýpi, þ.e. 10-20 m.
Þá fylgir niðurstöður hitastigulsmælinga úr tiltækum kaldavatnsholum og kort með tillögum að vænlegum rannsóknarstöðum.
Áætlað er að heildarkostnaður við borun rannsóknarholana sem Kristján leggur til að boraðar verði nemi allt að 3.5 millj. króna.
Sótt hefur verið um styrk til verkefnisins til Orkusjóð og má vænta niðurstöðu þeirrar umsóknar um í byrjun júní.
Í umsókninni kemur fram:
Kjósarhreppur hefur lengi leitað leiða til að virkja jarðhita til húshitunar. Vísað er í hjálagða skýrslu Kristjáns Sæmundssonar, en hann hefur á undanförnum misserum unnið fyrir Kjósarhrepp, með það að markmiði að finna heitt vatn um miðbik sveitarinnar sem gæti skapað grundvöll að lagningu almennrar hitaveitu um hreppinn.
Samkvæmt mati Kristjáns mun kostnaður við leit, sem hann ráðleggur á grundvelli rannsókna sinna, nema um 3,5 milljónum króna. Kjósarhreppur áætlaði eina milljón til verksins fyrir árið 2008. Er því einsýnt að Kjósarhreppur hefur ekki bolmagn einn og sér til að kosta borun á þeim rannsóknarholum sem hann ráðleggur að boraðar verði. Kjósarhreppur leggur mikla áherslu á að verkefnið komist í framkvæmd, þannig að það verði ekki vafa undirorpið hvort heitt vatn sér til staðar þar sem nýting þess er raunhæfur kostur fyrir sveitarfélagið.
Afgreiðsla; Samþykkt að beina því til hreppsnefndar að leitað verði tilboða vegna borana rannsóknarholanna og þær gerðar við fyrsta tækifæri, burt séð frá niðurstöðu afgreiðslu Orkusjóðs.
2. mál, Hvammur/Hvammsvík
Formaður lagði fram erindi oddvita Kjósarhrepps til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og greindi frá að OR hefur ákveðið að selja jarðirnar án vatnsréttinda.
3. mál Vegamál
Pöntuð hafa verið 5 ristarhlið á heimkeyrslur í hreppnum. Áætlaður kostnaður við smíði þeirra er um 1.4 millj. og að niðursetning hvers hliðs með undirstöðum kosti kr. 120 þúsund.
Nefndin leggur áherslu á að frágangur hliðanna verði vandaður.
4. mál, héraðsvegir
Formaður lagði fram eftirfarandi erindi frá oddvita:
Með vísan til Vegalaga nr. 80/2007 8. gr. lið c um héraðsvegi hefur Sumarhúsafélagið Valshamar í Eilífsdal óskað eftir að vegur frá Eyrarfjallsvegi að hliði að sumarhúsasvæði verði tekið í tölu héraðsvegar.
Er óskað eftir að nefndin taki afstöðu til erindisins.
Afgreiðsla;
Nefndin telur að á grundvelli Vegalaga þar sem segir að þar sem fleiri en 30 sumarhús séu í hverfi sé heimilt að taka slíka aðkomuvegi að hverfi á héraðsvegaskrá.
Samþykkt að vísa erindinu áfram til hreppsnefndar.
5. mál. Samningar við landeigendur vegna borana rannsóknarholna.
Lögð fram uppfærð drög að samningum.
Önnur mál.
Gunnar Leó spurðist fyrir um viðhald á veggirðingunni meðfram Hvalfjarðarvegi.
Fleira ekki gjört –fundi slitið