Markaðs, atvinnu- og menningarmálanefnd
Markaðs-, atvinnu- og menningarmálanefnd Kjósarhrepps, fundur nr. 7
Dag: 4.nóvember 2014, í Ásgarði, kl. 13:00
Mætt:
Sigurbjörg Ólafsdóttir (SÓ), Eva B Friðjónsdóttir (EBF) og Ólafur Oddsson (ÓO)
Sigríður Klara Árnadóttir (SKÁ) ritari
Þórarinn Jónsson (ÞJ) boðaði forföll
Dagskrá:
1. Sviðaveisla á Hjalla 10. okt sl.
Hjónin á Hjalla héldu sviðaveislu sem tókst vel, um 60 manns mættu. Almenn ánægja er með þetta innlegg í menningarlífið í sveitinni og frumkvæði þeirra hjóna.
Kjósarhreppur aðstoðaði við að auglýsa viðburðinn á heimasíðunni kjos.is, á Facebook-síðunni „Kátt í Kjós“ auk þess að senda auglýsingu heim á bæina.
2. Aðventumarkaðurinn í Félagsgarði, laugardaginn 6.des – kl. 13-17
Skipulag verður með hefðbundnu sniði, söluborð verða til leigu í sal og niður í anddyri, hægt verður að taka út peninga á staðnum. Kvenfélagið verður með kaffisölu.
Ákveðið að höfða til upplifunarhluta markaðarins í auglýsingum, hugmyndir ræddar um hentugar leiðir til að auglýsa, bæði hvað varðar fréttamiðla, samskiptamiðla og staði til að auglýsa á.
3. Áningaskiltin – staðan á þeim
SKÁ fundaði með hjónunum á Kiðafelli 3, Katrínu og Birni, ásamt Óðni frá Hlíðarási til að rýna það sem komið var. Auk þess komu hjónin á Neðra Hálsi, Dóra og Kristján, í Ásgarð með uppfærðan texta varðandi skógrækt og ábendingar varðandi skiltin sem fjalla um Maríuhöfn og Búðasand. Leiðrétta þarf bæði texta og myndir, í samvinnu við Magnús Þorkelsson og Minjastofnun Íslands.
Ljóst er að þetta er stærra verkefni og meira sem þarf að endurvinna en haldið var í fyrstu. Vinnu við skiltin er hvergi nærri lokið og áfram verður unnið við verkið í vetur.
4. Bókasafnskvöldin ásamt viðburðum
Hugmyndir ræddar um bóka- og handverkskvöld, bóka- og spilakvöld, bóka- og tónlistarkvöld, bóka- og menningarkvöld í samvinnu við bókasafnið. Farið verður í vikunni að kaupa inn nýjar bækur og næsta bókasafnskvöld verður haldið miðvikudaginn 12.nóv nk.
5. Söguritun í Kjósinni
Verið er að skrifa Byggðasögu Kjósarhrepps frá upphafi og einnig 100 ára sögu ungmennafél. Drengs.
Nefndin fagnar því að verið sé að rita sögu Kjósarinnar og Ungm.félagsins. Jafnframt telur nefndin að gera eigi framhald af (uppfletti-)bókinni: Kjósarmenn, sem átthagafélag Kjósarhrepps lét gera og nær til ársins 1960. Þessi bók er mikið notuð enn þann dag í dag og kominn tími á að taka saman árin eftir 1960. Vísað til ákvörðunar í hreppsnefnd.
6. Kortlagning auðlinda í ferðaþjónustu á vegum Ferðamálastofu
Aðalheiður Birna (Bidda) á Hjalla, Vigdís Ólafsdóttir frá Valdastöðum og Sigríður Klara hafa lokið við að meta í kringum 30 staði í Kjósarhreppi. Ferðamálastofa mun í vetur vinna úr þessu og niðustöður verða kynntar áður en þetta fer í opinbera dreifingu.
Fundi slitið, kl 15:11
Sigríður Klara, ritari