Fara í efni

Uppfærð áætlun Kjósarveitna

Deila frétt:

 

 Úrkoma síðustu daga hefur víða haft áhrif um Kjósina eins og annars staðar.

 

Saklausir bæjarlækir eru orðnir að beljandi fljóti, tún breyst í stöðuvötn og heyrúllur farnar að sigla til sjávar.

 

Verktakar Kjósarveitna hægðu á framkvæmdum með stóru tækin, þar sem vinnuvélar voru farnar að síga ískyggilega djúpt með tilheyrandi áhrifum á landið.

Dagurinn í gær var samt nýttur vel, enda kominn tími til að smyrja og yfirfara vélar og tæki eftir stöðuga notkun undanfarna mánuði.

 

Verkstaðan 12. október sl. er HÉR

Uppfærð verkáætlun Gröfutækni er síðan að finna HÉR  

 

Sökkull undir stöðvarhús veitunnar, rís hægt og sígandi upp úr grunninum og vinna við dæluhúsið sem mun koma við endann á Hjarðarholti er hafin.

 

Gengið var frá samningi við Íslenska jarðhitatækni ehf í vikunni, um öxuldjúpdælu sem mun fara ofan í borholu MV-19. Hámarks afköst dælunnar eru um 40 l/s, en þörfin fyrst um sinn er miðuð við vatnsborð á 100 m dýpi um 30 l/s og vatnshita allt að 82°C. Hola MV-24, þarf enga aðstoð hún sér sjálf um að dæla upp á yfirborðið yfir 20 l/s af yfir 100°C heitu vatni.

 Byggt verður borholuhús yfir þessar tvær borholur veitunnar og hafa sumir haft á orði að það verði sjónarsviptir að þegar gufan frá holu MV-24 hverfur, þetta sé orðið eitt af kennileitum Kjósarinnar. Dælan verður afhent í lok nóvember og tilbúin að dæla vatni á lagnirnar um áramótin. Allt á áætlun.

 

 

 

Elís Guðmundsson og Hilmar Elísson

hjá H-verk ehf, í sökklinum fyrir stöðvarhúsið

Hitaveitu- og ljósleiðararör bíða

eftir að komast í jörð þegar styttir upp

Pétur Þorkelsson, Árni Gunnarsson,

Sigríður Klara og Árni Stefánsson

við undirritun í húsnæði

ÍJ ehf að Völuteigi í Mosfellsbæ