Þegar Kjósin ómaði af söng
Bókin Þegar Kjósin ómaði af söng er byggð á viðtölum Ágústu Oddsdóttur við eldra fólk í Kjós um árabil og ákvað hún 2017 að safna þeim í handrit ásamt rituðum heimildum um söng- og félagslíf sem var einstaklega virkt í Kjós á 20. öldinni. Faðir Ágústu, Oddur Andrésson og afi, Andrés Ólafsson, leiddu kraftmikið söngstarf í sveitinni. Bjarki Bjarnason aðstoðaði Ágústu við að vinna handritið áfram til útgáfu og kom bókin út haustið 2021. Eyjólfur Jónsson (Guðmundssonar söngmanns á Reykjum) sá um umbrot.
Forvígismenn söngstarfsins í Kjósinni ólust upp í rótgrónu bændasamfélagi sem hafði lítið breyst um aldir eins og kemur m.a. fram í viðtölum Kjósverja, sjá 1 hluta. Lesa má hve allur aðbúnaður var ólíkur því sem nú er. Þá bjuggu fæstir bændur í Kjós á eignarjörðum heldur höfðu jörðina til ábúðar.
Langafi Ágústu Oddsdóttur, Gestur Jónsson, bjó sem húsmaður með grasnot hjá tengdaforeldrum sínum í Eyrar-Útkoti [nú Eyrarkot/Álfagarður]. Gestur og kona hans Guðrún Gísladóttir höfðu fengið Kiðafell til ábúðar vorið 1885 en hann drukknaði þá á vorvertið. Guðrún flutti þá, 35 ára gömul ekkja, með 2 börn þeirra, að Kiðafelli og bjó þar til ársins 1901 (s. 22).
Í 2 hluta er sagt frá umhverfinu sem söngstarfið óx og blómstraði í. Miklar samfélagslegar breytingar urðu 1930-1950. Hraði breytinganna jókst þegar heimstyrjöldin síðari setti mark sitt á tilveruna, og voru mikil hernaðarumsvif í Hvalfirði árin 1940-1945.
Guðbrandur Hannesson: „Nokkrum árum eftir að herinn fór var ég vinnumaður í Hvammsvík frá áramótum fram á vor af því að Samson [Samsonarson] bóndi þar átti í veikindum. Hvammur og Hvammsvík voru hersetin býli öll stríðsárin og hafði herinn til dæmis byggt hús uppi á hæðinni og annað neðar í hæðinni og þar geymdi Samson fóðurbæti. Í Hvítanesi voru umsvif hersins miklu meiri og Ungmennafélagið keypti bíó-braggann þaðan. Sviðið og bekkirnir úr honum voru notuð í Félagsgarði“ (s. 94-96).
Í 3 hluta er söngsaga Kjósarinnar rakin nánar; hvernig söngstarf Odds Andréssonar verður til og dafnar innan sveitar sem utan. Til dæmis segir frá hverjum söngmanni í Karlakór Kjósverja sem var stofnaður 1935, og varð kórinn hluti af Karlakór Kjósarsýslu 1959 til 1976, sem Oddur stofnaði líka og stjórnaði.
Skugga-Sveinn gengur í karlakórinn
Gísli Ellertsson á Meðalfelli segir frá: „Ég söng á tónleikum með Karlakór Kjósverja, bæði í Félagsgarði og Hlégarði, og á 6. áratugnum fórum við í Útvarpshúsið við Austurvöll þar sem
söngur kórsins var tekinn upp. Eitt árið æfði Ungmennafélagið Drengur leikritið Skugga-Svein eftir Matthías Jochumsson þar sem Karl Andrésson lék Skugga-Svein og Eggert bróðir minn Ketil skræk. Málum lyktaði þannig að ekki náðist að sýna leikritið en kórinn æfði upp nokkur sönglög úr því og flutti þau á söngskemmtun. Þar sungu Karl og Eggert lögin sem þeir höfðu æft vegna fyrirhugaðrar leiksýningar“ (s. 141).
Kápa bókarinnar Þegar Kjósin ómaði af söng er teiknuð og hönnuð af mymdlistarmanninum Agli Sæbjörnssyni, og líka útlit geisladisks sem fylgir bókinni. Á diskinum eru upptökur frá RÚV af söng Karlakórs Kjósverja (1953) og söng Karlakórs Kjósarsýslu (1962) undir stjórn Odds Andréssonar. Egill myndskreytti líka bókina. Á framhlið kápunnar er mynd af kirkjukór Reynivallakirkju 1965, á bakhlið eru Ágústa og Bjarki við Laxá með Ásgarð í baksýn.
Bókin fæst í bókabúð Forlagsins á Granda og mun verða til sölu á jólamarkaðunum í Félagsgarði 7 des næstkomandi og á jólamarkaði í Hlégarði 14. des.