Fara í efni

Öflugir hrossaræktendur í Kjós með framúrskarandi árangur

Deila frétt:

 

Það er óhætt að segja að mjög góður árangur hafi náðst hjá hrossaræktendum í Kjós á kynbótasýningum sumarsins. Tíu hross sem ræktuð voru af Kjósverjum voru sýnd í fullnaðardóm á árinu og eiga þau öll ættir að rekja til Adams frá Meðalfelli eins og vera ber. Hæst dæmdu hrossin voru hryssurnar Katla frá Meðalfelli og Sólgrá frá Miðdal sem hlutu báðar 8,47 í aðaleinkunn en þriðja hæst dæmda hrossið var hryssan Halla frá Flekkudal með 8,37 í aðaleinkunn.

 

Frá Meðalfelli voru sýnd þrjú hross, Katla frá Meðalfelli, 6 vetra, sem hlaut 8,68 fyrir byggingu og 8,33 fyrir hæfileika, Þór frá Meðalfelli, 4 vetra, sem hlaut 8,07 í byggingu og 8,09 fyrir hæfileika, og Von frá Meðalfelli, sem hlaut 8,02 fyrir byggingu og 8,06 fyrir hæfileika.   Aðaleinkunn Kötlu er 8,47, Þórs 8,08 og Vonar 8,04.

 

Frá Þúfu voru sýnd tvö hross, Prins Valíant, 7 vetra, sem hlaut 8,15 fyrir byggingu og 8,38 fyrir hæfileika, og Rauðhetta, 5 vetra, sem hlaut 8,53 fyrir byggingu og 8 fyrir hæfileika.  Aðaleinkunn Prins er 8,29 og Rauðhettu 8,21.  Rauðhetta var sýnd sem klárhross og er án einkunnar fyrir skeið.

 

Frá Flekkudal voru sýnd tvö hross, Halla, 6 vetra, sem hlaut 8,08 fyrir byggingu og 8,56 fyrir hæfileika, og Sýr, 5 vetra, sem hlaut 8,19 fyrir byggingu og 8,07 fyrir hæfileika.  Aðaleinkunn Höllu er 8,37 og Sýrar 8,12.

 

Frá Morastöðum var sýnt eitt hross, Kolbakur,  7 vetra, sem hlaut 8,19 fyrir byggingu og 8,27 fyrir hæfileika.  Aðaleinkunn Kolbaks er 8,24.  Kolbakur var sýndur sem klárhross og er án einkunnar fyrir skeið.

 

Frá Miðdal var sýnt eitt hross, Sólgrá, 7 vetra, sem hlaut 8,18 fyrir byggingu og 8,67 fyrir hæfileika.  Aðaleinkunn Sólgráar er 8,47.

 

Frá Blönduholti var sýnt eitt hross, Sóley, 7 vetra, sem hlaut 7,93 fyrir byggingu og 8,02 fyrir hæfileika.  Aðaleinkunn Sóleyjar er 7,98. 

 

Hrossaræktendur í Kjós áttu fulltrúa á Landsmóti hestamanna sem haldið var í sumar.  Katla frá Meðalfelli tók þátt í kynbótasýningu á 6 vetra merum, Rauðhetta frá Þúfu í Kjós í kynbótasýningu á 5 vetra merum, og Vorsól frá Grjóteyri, Halla frá Flekkudal og Frjór frá Flekkudal í B flokk.