Fara í efni

Nýárskveðja frá Kjósarveitum

Deila frétt:

 

Athafnasvæði Kjósarveitna að Möðruvöllum.

Frá vinstri: Borholuhús (yfir holu MV-19), loftskiljan og stöðvarhúsið.

Húsin og skiljan verða síðan klædd með álklæðningu í gráum lit.

 

Kjósarveitur senda núverandi og verðandi viðskiptavinum sínar bestu óskir um hlýleg komandi ár.

 

Það er helst að frétta að í janúar 2017 verður heitu vatni hleypt á fyrsta áfangann sem nær frá holunum á Möðruvöllum, um Meðalfellsvatn, niður að Hvalfirði að Eyrarkoti og Bolaklettum, ásamt dæluhúsi á Hjarðarholti, inn að Eyrum og neðri-Hlíð (frístundahúsasvæðinu Valshamri) og að Eilífsdal. 
Á þessum legg er búið að leggja heimæðar að 204 frístundahúsum og 39 íbúðarhúsum. Því miður þarf að fresta tengingum við 9 frístundahús fram á næsta ár en vonandi vorar snemma.
Nánari dagsetning formlegrar áhleypingar verður auglýst síðar.

 

Fyrsti mælirinn er kominn upp og var það hjá þeim Sigurði og Steinunni í Stangarholti.

Þeir íbúar og frístundahúsaeigendur, sem verða tilbúnir að taka inn heita vatnið um leið og það kemur, vinsamlega setji sig í samband við Kjósarveitur, annað hvort við Sigríði Klöru (s: 566 7100, sigridur@kjos.is) eða Kjartan (GSM: 853 2112).
 
Loftskiljan kom mánudaginn 19. des, hún var smíðuð í Skagafirðinum og þurfti að sæta lagi á milli lægða að koma með hana suður í lögreglufylgd.
Skagfirðingarnir lögðu af stað um miðnætti, voru mættir í Kjósina um miðjar morgunmjaltir og farnir heim aftur eftir að hafa þegið hádegismat í Ásgarði.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita þá er vatninu úr þessum tveimur borholum sveitarinnar blandað saman í lofskiljunni í réttu hlutfalli og afloftað áður en það fer inn á lagnirnar.

 

Unnið var frameftir á Þorláksmessu og störf hafin strax á annan dag jóla til að nýta stundirnar þegar veðrið róast.
Sérsmíðuð djúpdæla sem fer ofan í eldri holuna (MV-19) er væntanleg á næstu dögum, þegar veður leyfir. Búið er að smíða sérstakt borholuhús utan um þá holu með lúgu í þakinu sem djúpdælan er hífð niður um.
Vinna við uppsetningar  og tengingar á öðrum dælum í stöðvarhúsi og dæluhúsum er langt komin. Búið er að klára tengingar við nýrri holuna (MV-24, þessi með gufustrókinn).
Það eru mörg handtökin við lokafráganginn og mikilvægt að vanda sig, en þetta er allt að koma eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Sem sagt þá er heildarframkvæmdin um það bil hálfnuð.
 
Mikið hefur verið spurt um pípulagningamenn og er því komin sér undirsíða hjá Kjósarveitum með lista yfir pípara og hin ýmsu tilboð - Píparar og tilboð
Þeir sem vilja koma sér eða sinni vöru á framfæri eru hvattir til að hafa samband í síma: 5667100 eða senda tölvupóst: kjosarveitur@kjos.is svo hægt sé að auglýsa fyrir viðkomandi.

 

Við þökkum frábærar móttökur og ekki síður skilning á því raski sem fylgir jafn viðamikilli framkvæmd og lagning hitaveitu ásamt ídráttarrörum fyrir ljósleiðara er, um sveitarfélagið.

 

Með hlýjum kveðjum

Sigríður Klara Árnadóttir
framkvæmdastjóri Kjósarveitna
Netfang: sigridur@kjos.is
sími: 566 7100
GSM: 841 0013

 


 

Byggingarnar stóðust úttekt.

F.v.: Hilmar húsasmíðameistari,

Jón Eiríkur byggingarfulltrúi og

Þeba Björt byggingarstjóri KV

Sigurður Guðmundsson,

Stangarholti, tekur á móti

fyrsta mælinum

Mælir - tilbúinn til tengingar Hemill - tilbúinn til tengingar

Það er ekki öfundsvert að

vinna utandyra í þessu tíðarfari.
Grafan nýtt til að halda niðri

suðutjaldinu og veita skjól

Suðumennirnir Birgir og Hlynur

voru fegnir að komast inn til að

sjóða saman smærri suður

Kjartan á fullu í eftirlitinu. Það

er eins gott að þrýstingsprófa

og lekaleita lagnirnar

Loftskiljunni komið fyrir á sökkul

sinn. Hún verður klædd

með álklæðningu síðar.