Fara í efni

Líf og fjör í sveitinni á aðventu

Deila frétt:

 

Lúsíur á aðventukvöldi í Reynivallakirkju 9. des sl.

 

Það er ekki hægt að segja annað en að líf og fjör sé í Kjósinni á þessari aðventu eins og áður.

 

Aðventumarkaðurinn í Félagsgarði var vel sóttur, hangikjötið rann út og Kirkjukór Reynivallasóknar sló í gegn með jólasöngvum sínum.
 
Um 80 manns mættu á aðventukvöldið í Reynivallakirkju á 2. sunnudegi í aðventu.
Kirkjugestir nutu þess að hlusta á englasöng 7 ungra stúlkna úr sveitinni, hlýða á einlæga hátíðarræðu Hrafnhildar í Fagralandi og njóta tónlistar Bubba Morthens á heimaslóðum.

Að ógleymdum kirkjukórnum okkar frábæra, sem söng nokkur lög.

Gæddu gestir sér í lokin á heitu súkkulaði og áttu notalegt spjall við sveitungana.
 
Nær 20 manns mættu á upplestur úr jólabókum í Ásgarði í gærkvöldi, 12. desember. Þar sem Guðrún Eva Mínervudóttir, las upp úr smásagnasafni sínu um hann Austin frá Texas og Bjarni Harða fór á kostum í leiklestri bæði úr bók sinni Gullhreppurinn og úr ævisögu refaskytturnnar Guðmundar Einarssonar, Nú brosir nóttin eftir Theódór Gunnlaugsson og þá fékk hann Guðrúnu Evu sér til að stoðar að lesa um baráttu Guðmundar sem smá stráks við mannýga tarfinn. Báðar þessar bækur eru til á bókasafni Kjósarhrepps í Ásgarði ásamt heilum haug af nýjum og spennandi bókum.

 

Í dag 13. desember kl. 16,  verður auka fundur í hreppsnefnd þar sem farin verður síðari yfirferð yfir fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins fyrir næsta ár og næstu 3 ár.
 
Fimmtudaginn 20. desember mun sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarpresturinn okkar, bjóða eldra fólki úr Kjósinni og af Kjalarnesinu til  kaffisamsætis kl. 15, að prestssetrinu á Reynivöllum og gítarinn örugglega innan seilingar hjá sr. Örnu.
 
Hin árlega skötuveisla verður að venju í Félagsgarði á Þorláksmessu, sunnudaginn 23. des. kl. 13.00.
Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir hádegi fimmtudaginn 20. des. á felagsg@gmail.com eða hjá Syrrý í síma 823 6123.  Verð kr. 2.300 á mann. Frítt inn fyrir 12 ára og yngri.

 

Jólamessan verður á sínum stað í Reynivallakirkju, kl. 14 á jóladag, 25.desember.

 
Í gær, miðvikudaginn 12. des létu konur í Kvenfélagi Kjósarhrepps enn á ný gott af sér leiða og mættu færandi hendi til Kvennadeildar Landspítalans, með tvo Lazyboy stóla að andvirði nær 300 þús kr.

F.v: Hrund Kvennadeild LSP, Sigurbjörg Meðalfelli,

Jóhanna Káraneskoti, Guðný Flekkudal formaður kvenfélagsins

og Soffía Traðarholti

 

 

Nú mega jólin koma í Kjósina

 

 

Ef einhverjir vilja láta vita af fleiri viðburðum í Kjósinni og/eða nágrenni þá endilega sendið póst á kjos@kjos.is og því verður komið á framfæri hér á síðunni.

 

 

P.S. Smá praktískt í lokin.

Gámaþjónustan mun tæma bæði almennar ruslatunnur og blaðatunnur, mánudaginn 17. desember.
Koma síðan aftur sunnudaginn 30. desember og tæma þá einnig bæði rusla- og blaðatunnur.

Fyrsta ferð þeirra á nýju ári verður mánudaginn 14. janúar 2019 og þriðju ferðina í röð ætla þeir að tæma bæði rusla- og blaðatunnur.


Í kjölfarið hefst rútinu tæmingarferlið þeirra, annan hvern mánudag ruslatunnan og blaðatunnan á 4 vikna fresti.

Þannig að mánudaginn 28. janúar verður einungis ruslatunnan tæmd, sorphirðudagatalið fyrir 2019 er að finna HÉR