Kjósarhreppur auglýsir skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nesvegur 1, 3 og 5 - Deiliskipulag
Kjósarhreppur auglýsir skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Nesvegur 1, 3 og 5 - Deiliskipulag
Samþykkt var í sveitarstjórn Kjósarhrepps 5. júlí 2022 að auglýsa tillögu deiliskipulags Nesvegar 1, 3 og 5 í landi Flekkudals í Kjósarhreppi og að heimilt sé að falla frá gerð lýsingar fyrir deiliskipulagsverkefnið, enda liggi allar meginforsendur fyrir í aðalskipulagi, sbr. 3. mgr. 40. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagssvæðið er um 1,4 ha að stærð, með aðkomu frá Nesvegi og tekur til þriggja frístundalóða sem skipt var út úr landi Flekkudals (L126038) í Kjósarhreppi. Svæðið er sunnan Flekkudalsvegar nr. 4834 og vestan Nesvegar. Deiliskipulagið felur m.a. í sér að afmarka og skilgreina byggingareiti fyrir lóðirnar; Flekkudalur 1, 3 og 5.
Í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er svæðið skilgreint (eftir nýsamþykkta breytingu) sem frístundabyggð F4A. Deiliskipulagstillagan er því í samræmi við gildandi aðalskipulag Kjósarhrepps 2005-2017. Þeim sem gerðu athugasemdir hefur áður verið send umsögn Sveitarstjórnar, sbr. 1 mgr. 42 gr. Skipulagslaga.
Nú þegar er búið að leggja aðkomuveg sem nýtist svæðinu og byrjað er að reisa frístundahús austan vegarins á deiliskipulögðu svæði. Svæðið er því í jaðri þegar raskaðs lands, þar sem verið er að nýta núverandi innviði og er því ekki verið að raska samfelldu landbúnaðarlandi.
Deiliskipulagstillagan verður til sýnis í anddyri hreppsskrifstofu Kjósarhrepps í Ásgarði frá og með 6. júlí 2022 til og með 19. ágúst 2022. Tillögurnar verða jafnframt birtar á heimasíðu Kjósarhrepps, kjos.is. Athugasemdir eða ábendingar vegna deiliskipulagstillögunnar skulu vera skriflegar og berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 19. ágúst 2022. Póstlagðar athugasemdir berist á skrifstofu Kjósarhrepps að Ásgarði Kjós, 276 Mosfellsbæ, eða með tölvupósti á netfangið skipulag@kjos.is
Kjósarhreppur 6.7. 2022
Skipulagsfulltrúi Kjósarhrepps.