Kátt í Kjós fjölsótt
Sumarhátíðin Kátt í Kjós fór fram í blíðskaparveðri laugardaginn 22. júlí þetta árið. Hátíðin var með hefðbundnu sniði en meðal þess sem á dagskrá var má nefna; handverksmarkaður var settur upp í Félagsgarði, Kvenfélagið var með kaffisöluna sína eftirsóttu, boðið var á hestbak, rúlluskreytingakeppnin fór fram við miklar vinsældir og síðast en ekki síst bauð Leikhópurinn Lotta upp á söngatriði úr sýningum sínum. Auk þess höfðu bændur vörur til sölu beint frá býlum sínum og Kaffi Kjós tók vel á móti viðskiptavinum sínum fram á kvöld og bauð upp á trúbadorinn Garðar Garðarsson við góðan orðstír. Óhætt er að segja að aðsókn hafi farið fram úr björtustu vonum og viðtökur voru frábærar.
Tilkynnt hefur verið hver bar sigur úr býtum í rúlluskreytingakeppninni, en það var Elma Karen sem bjó til afar metnaðarfullan popp-poka úr sinni rúllu. Hún, ásamt þeim sem lentu í öðru og þriðja sæti, fengu gjafabréf í A4 í verðlaun.
Fjölskyldu- og menningarnefnd Kjósarhrepps vill þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við að halda vel heppnaða Kátt í Kjós og hlakkar til að sjá ykkur að ári.