Fara í efni

Jólakveðja frá Kjósarveitum

Deila frétt:

Lagningu dreifikerfis hitaveitu Kjósarhrepps er lokið og þar með 2ja ára verkefni einungis tveim vikum eftir áætluð verklok, sem er ekki mikið á jafn viðamiklu verkefni.
Hörður Úlfarsson og hans menn hjá Gröfutækni ehf komu síðustu heimtauginni í jörð föstudaginn 8. desember sl.
Jón Ingileifsson og hans hópur hjá Magnúsi Ingberg Jónssyni ehf lauk sínum verkhluta um miðjan október. Þeir tóku í kjölfarið til við að leggja 10 heimæðar sem voru komnar á biðlista og luku þeirri vinnu fyrir októberlok.
Næsta vor verður farin lokaúttekt á framkvæmdasvæðinu til að sjá hvernig jarðvinnan kemur undan vetri. Jafnframt verður haldið áfram næsta vor með þær heimæðar sem eru á biðlista og koma til með að bætast við.

 

Tengistaðir voru alls 462, í dag eru 190 af þessum stöðum farnir að nota heita vatnið og því ljóst að heilmikil tengivinna er framundan.
93% íbúðarhúsa í Kjósinni sóttu um hitaveitu og nú þegar er 71% þeirra farin að njóta hitaveitunnar.
Varðandi sumarhúsin í Kjósinni, þá sóttu 73% þeirra um hitaveitu og er farið að renna heitt vatn um 36% af þeim.
Margir eru að bíða eftir pípulagningarmönnum til að klára innanhúslagnir hjá sér, mikill uppgangur er í þjóðfélaginu og því víðar beðið eftir iðnaðarmönnum en í Kjósinni.

Verkís ehf hefur sinnt kostnaðareftirliti með framkvæmdinni, haldinn var síðasti verkfundur með þeim 13. desember og hafa kostnaðaráætlanir staðist.
Eina sem ekki stóðst voru styrkgreiðslur frá ríkinu vegna lagningar hitaveitu á rafhituðu svæði skv. lögum nr. 78/2002, sem áttu að koma jafnt og þétt eftir því sem íbúar tengdust. En það horfir allt til betri vegar og skv. upplýsingum frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytingu er gert ráð fyrir greiðslum strax í ársbyrjun 2018. Í kjölfarið verður farið í endurfjármögnun þeirra lána sem hvíla á verkinu.

 

Í ársbyrjun 2018 tekur ný gjaldskrá gildi, heimæðargjöld munu hækka um 20%, (þar sem útboðsverðin gilda ekki lengur hjá verktökum og efnissölum) en verðskrá fyrir sjálft heita vatnið verður óbreytt.

 

Kjósarveitur ehf þakka viðskiptavinum sínum, íbúum, sumarhúsaeigendum, landeigendum, hönnuðum, verktökum, efnissölum og öllum öðrum velunnurum veitunnar fyrir góða samvinnu og ómetanlega þolinmæði á meðan þessar stórframkvæmdir voru í gangi.

 

Með bestu óskum um hlýleg komandi ár.

Stjórn Kjósarveitna:
Pétur Guðjónsson, Bæ - stjórnarformaður
Guðmundur H. Davíðsson, Miðdal
Jón Bjarni Bjarnason, Norðurnesi - f.h. sumarhúsaeigenda í Kjós
Karl Magnús Kristjánsson, Eystri-Fossá
Sigurður Ásgeirsson, Hrosshóli

og starfsmenn:
Sigríður Klara Árnadóttir, framkvæmdastjóri
Kjartan Ólafsson, rekstrarstjóri