Heimsókn þingmanna í Kjördæmaviku
10.10.2022
Deila frétt:
Síðastliðinn föstudag þegar Kjósin skartaði sínu fegursta í haustlitum og veðrið sýndi sínar bestu hliðar, tók sveitarstjórn Kjósarhrepps á móti Þingmönnum Kragans í kaffi í Ásgarði. Heimsóknin var liður í árlegri kjördæmaviku. Kjördæmavika er haldin einu sinni á ári, venjulega síðustu vikuna í októbermánuði. Þá viku eiga þingmenn að nýta til að fara í kjördæmin sín og hitta þar sveitarstjórnir, fulltrúa fyrirtækja og kjósendur.
Nánast allir þingmenn kjördæmisins mættu til fundar í Ásgarði og áttu gott samtal við sveitarstjórnarfulltrúa og sveitarstjóra. Fundinn nýtti sveitarstjórn til að kalla eftir úrbótum í ýmsum málum sem eru á hendi hins opinbera, s.s. bættri þjónustu við heimahjúkrun og nýbakaða foreldra af hendi heilsugæslunnar, heilbrigðisráðherra sem sat fundinn ætlar að taka þessi mál upp við heilsugæsluna. Einnig var lögð áhersla á lagningu slitlags á Eyrarveginn, tvöföldun brúarinnar yfir Laxá, bætt fjarskipta samband og lækkun á flutningsgjaldi rafmagns til samræmis við höfuðborgarsvæðið á þeim forsendum að Kjósin er hluti af höfuðborgarsvæðinu. Töluverður verðmunur á flutningsgjaldi er á milli dreifbýlis og þéttbýlis.
Einnig ræddu fulltrúar sveitarfélagsins þá þörf á að enduskoða lög um lögheimili, þar sem það er að færast í vöxt að fólk kjósi að búa allt árið í húsum sem eru í frístundabyggð, finna þurfi leið til að koma í veg fyrir þau vandamál sem skapast við að vera "ótilgreindur í hús".
Ekki var annað að heyra en að fundarmenn væru sammála um að allt væru þetta brýn verkefni og að uppbygging innviða Kjósarinnar og bætt þjónusta væri þarft verkefni ekki síst í ljósi þess áhuga sem er á búsetu í þessari perlu við borgarmörkin.