Fara í efni

Góðar fréttir af ljósinu og eMax

Deila frétt:

 

   Forsvarsmenn Kjósarhrepps og Leiðarljóss áttu góðan fund með aðilum frá Reykjavíkurborg, þar á meðal borgarritara, og Eflu-Verkfræðistofu,  í Ráðhúsi Reykavíkur í gær, fimmtudaginn 9. ágúst.


Samkomulag náðist við Reykjavíkurborg um að lögð yrðu tvenn ídráttarrör frá símstöðinni í Grundarhverfi upp að Kiðafelli. Eitt fyrir Kjósarhrepp og annað fyrir Reykjavíkurborg. Aðgangur, ábyrgð og eignarhald yrði algjörlega aðskilið milli þessara ljósleiðara og rörin höfð í mismunandi litum.
Kjósarhreppur tekur að sér verkið og kemur rörunum niður skv. lagnaleið sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið í samvinnu við Eflu-verkfræðistofu.
Kraftur verður settur í næstu skref, sem eru að klára ýmis formsatriði s.s. skriflegt samkomulag milli Kjósarhrepps og Reykjavíkurborgar (varðandi ábyrgð, eignarhald, kostnaðarþátttöku o.s.frv.), samninga við landeigendur á umræddri leið, samninga við Vegagerðina, fá verktaka í verkið

 ... OG BYRJA SVO !


Síðan var haldið til fundar með forstöðumanni tæknisviðs Sýnar hf. / Vodafone, Sigurbirni Eiríkssyni, vegna tilkynningar frá þeim að örbylgju dreifikerfið eMax (Lofthraði) yrði lagt niður á næstu mánuðum. Samkomulag náðist um að fresta því þar til ljósleiðarinn væri orðinn virkur í Kjósinni. Kjósarhreppur er stærsta sveitarfélagið sem hefur þurft að treysta á örbylgjusamband þar sem 4G farsímakerfið næst einungis í hluta sveitarinnar. Fundarmenn drógu ekki dul á almenna óánægja með uppitíma og flutningsgetu gamla eMax-kerfisins, lágmarks viðhald hefur verið á kerfinu eftir að ákvörðun var tekin að leggja það niður enda varahlutir mjög dýrir í þetta sérhannaða kerfi og hreinlega illfáanlegir í dag. En kerfinu verður haldið virku þar til ljósleiðarinn kemur og þakkar Kjósarhreppur Vodafone fyrir skilninginn.
Á móti sækir Vodafone um ljósleiðara að sínum fjarskiptastöðum (möstrum) sem mun tryggja bættara farsímasamband á svæðinu og aukin gæði sjónvarpsútsendinga.
Staða verkefnanna verður uppfærð hér á heimasíðunni um leið og hver verkáfangi er í höfn.


Aldeilis frábærar fréttir til að taka með inn í helgina.

Karl Magnús Kristjánsson
oddviti og sveitarstjóri