Fara í efni

Fjöldahjálparstöð í Ásgarði í Kjós

Deila frétt:

F.v.: Hrönn Pétursdóttir formaður RKÍ-Mosfellsbæ afhendir

Sigríði Klöru gögn frá RKÍ til að hafa í Ásgarði .

Þeim til fulltingis eru Atli Ö Konráðs Gunnarsson og

Sigurður Pétur Harðarson úr neyðarvarnarhópi RKÍ í Mosfellsbæ

 

Nýverið var gengið frá því að stjórnsýsluhús Kjósarhrepps, Ásgarður, yrði það húsnæði innan sveitarfélagsins sem hægt væri að virkja sem fjöldahjálparstöð ef og þegar þyrfti.  Ásgarður uppfyllir öll þau skilyrði sem gerð eru til slíkra stöðva.

 

Rauði krossinn óskaði eftir fjöldahjálparstöð í sveitarfélaginu m.a. í ljósi aukinnar umferðar og ferðamannastraums um svæðið. 

 

Deildin býr þegar yfir vel þjálfuðum og reyndum sjálfboðaliðum sem hafa búsetu í Mosfellsbæ og Kjalarnesi. 

Hins vegar getur veður verið þannig að ekki sé æskilegt að keyra fólk lengri leiðir til að opna fjöldahjálparstöð í Ásgarði.

Leitar deildin því að nokkrum einstaklingum sem búa í Kjósinni og nær Ásgarði og eru tilbúnir að taka að sér að opna fjöldahjálparmiðstöð í húsinu þegar á þarf að halda.  Þessir einstaklingar fara á kvöldnámskeið hjá Rauða krossinum áður en þeir taka til starfa, en fá aðstoð reyndra sjálfboðaliða ef opna þarf við aðstæður aðrar en bara að veita ferðalöngum skjól frá veðri.

 

Þeir sem hafa áhuga og/eða vilja bjóða sig fram geta fengið ítarlegri upplýsingar með því að hafa samband við Hrönn Pétursdóttur í netfangið formadur.moso@redcross.is

 

Fjöldahjálparstöðvar falla undir starfsemi almannavarna á Íslandi og er ákvörðun um það að opna stöðvarnar tekin af almannavarnarnefnd þegar veður, náttúruhamfarir eða slys gera það að verkum að koma þarf fólki í skjól eða aðstoða það í nauð. Það er mismunandi hversu oft slíkar stöðvar eru opnaðar, sumar aldrei eða á margra ára fresti en einstaka – eins og á Kjalarnesi – allt að fimm sinnum á ári.

 

Rekstur þessara stöðva er í höndum Rauða krossins.  Sem hluti af almannavarnarkerfinu þá hefur félagið umsjón með fjöldahjálp og sálfélagslegum stuðningi þegar náttúruhamfarir og aðrir alvarlegir atburðir eiga sér stað, auk þess að veita áfallahjálp í kjölfar vinnuslysa, hópslysa og annarra alvarlegra atburða.  Þá er þolendum húsbruna veitt fyrsta aðstoð á vettvangi, svo sem þak yfir höfuðið, mat og aðrar brýnustu nauðsynjar.  Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds og af þjálfuðum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir til aðstoðar, hvenær sem kallið kemur.

Undanfarin ár hefur Rauði krossinn á Íslandi séð um rekstur fjöldahjálparstöðvanna á höfuðborgarsvæðinu en haustið 2018 tók deild Rauða krossins í Mosfellsbæ verkefnið yfir á sínu starfssvæði en það nær til Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar.