Hólmfríður Gísladóttir fyrrverandi skólastjóri heimavistarskólans Ásgarðs, er látin.
Hólmfríður Gísladóttir féll frá 7. mars 2023. Hún var skólastjóri heimavistarskólans Ásgarðs í Kjós á árunum 1964-1974.
Hólmfríður fæddist 3. nóvember 1938 á Akureyri og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá ML árið 1958 og kennaraprófi 1961. Eftir tveggja ára kennslu á Akureyri fór hún í hálft ár til Bandaríkjanna og tók þar þátt í alþjóðlegu samstarfi á kennslusviði en kom síðan heim og tók við stöðu skólastjóra og kennara í Kjós. Þá stöðu hafði hún í 10 ár, með eins árs hléi 1967-68. Eftir árin í Kjós fór hún til náms í Danmörku í eitt ár en kenndi síðan við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði þar til hún tók við stöðu deildarstjóra hjá Rauða krossi Íslands. Þar starfaði hún í rúma tvo áratugi, til ársins 2006. Auk þessa starfaði Hólmfríður sem leiðsögumaður um 25 ára skeið, samhliða starfi sínu hjá RKÍ.
Kjósin festi djúpar rætur í hjarta Hólmfríðar og nemendurnir urðu henni afar kærir. Fyrir utan venjulega kennslu og skólastjórastörf, fór hún með þeim í gönguferðir, fjallgöngur, útilegur, kenndi þeim mikilvægi náttúruverndar (þau hreinsuðu t.d. gaddavír í Hvalfirði - eftirstöðvar stríðsáranna), sungu skátasöngva við hlaðin eldstæði undir klettum, og stuðlaði að bættri tannheilsu með heimsóknum til tannlækna í Reykjavík.
Hólmfríður naut þess í miklum mæli að ganga, bæði í borgum og bæjum en ekki síst úti í náttúrunni og á fjöll. Hún ferðaðist einnig vítt og breitt um landið, bæði ein, í hópferðum og sem leiðsögumaður. Hólmfríður fór einnig oft til útlanda, bæði á fundi, við flóttamannastörf og á námskeið en einnig í fjölskylduheimsóknir og til að sjá og kynnast ókunnum löndum.
Hólmfríður eignaðist tvær dætur, Sigríði Hildu Radomirsdóttur, f. 1968 og Lilju Grétarsdóttur, f. 1970, d. 2018. Kjósin á því líka ríka sögu í uppvaxtarárum þeirra en Lilja bjó einnig síðar í Kjósinni um nokkurra ára skeið með heitmanni sínum, Julio Gutierrez.
Hólmfríður lætur eftir sig dóttur og þrjú barnabörn.
Útför Hólmfríðar fer fram miðvikudaginn 15. mars kl. 11 í Háteigskirkju í Reykjavík. Hólmfríður verður lögð til hinstu hvílu í kirkjugarðinum við Hallgrímskirkju, Saurbæ, Hvalfjarðarströnd síðar sama dag.