Fara í efni

COVID-19: Stórhertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti - fjöldatakmörk 10 manns

Deila frétt:

COVID-19: Stórhertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti - fjöldatakmörk 10 manns

Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir á landsvísu taka gildi á miðnætti í kvöld. Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginregla og aðeins börn fædd 2015 og síðar verða þar undanskilin. Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við. Margvísleg starfsemi sem rúmast ekki innan reglu um 10 manna fjöldatakmörkun verður stöðvuð. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir byggist á tillögum sóttvarnalæknis um að grípa tafarlaust til ráðstafana vegna hópsýkinga innanlands að undanförnu til að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar. Hertar reglur munu gilda í 3 vikur.

Hópsýkingarnar að undanförnu eru allar af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að hertar aðgerðir taka nú til barna allt frá grunnskólaaldri þar sem sýnt þykir að breska afbrigðið veldur meiri einkennum hjá eldri börnum en önnur afbrigði veirunnar. Að öðru leyti er í meginatriðum um að ræða sömu reglur í megindráttum og tóku gildi 31. október á liðnu ári og gáfust vel til að kveða niður þriðju bylgju faraldursins hér á landi.

Helstu reglur sem taka gildi á miðnætti:

Nándarregla verður áfram 2 metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin 2 metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

  • Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
  • Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
  • Sund- og baðstaðir lokaðir.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
  • Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar. 
  • Sviðslistir og sambærileg starfsemi, svo sem bíó, er óheimil.
  • Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar lokaðir.
  • Ökunám og flugnám með kennara óheimilt.
  • Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 22, með að hámarki 20 gesti í rými sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til kl. 21.00. 
  • Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
  • Starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi verður áfram heimil. 

Skólahald 

Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað frá og með morgundeginum og þar til hefðbundið páskafrí tekur við. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands