Breytingar á gjaldskrá vegna úrgangsmála
Eins og hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og á þessari síðu, eru miklar breytingar yfirstandandi í úrgangsmálum þjóðarinnar. Mun meiri kröfur eru gerðar um meðhöndlun úrgangs og þar með til flokkunar. Þessar kröfur eru bæði gerðar til neytenda og sveitarfélaga.
Breytingunum fylgir óumdeilanlega aukinn kostnaður sem sveitarfélögum er óheimilt að niðurgreiða með öðrum tekjum. Það jákvæða við þetta er að neytendur geta haft áhrif á þennan kostnað með minni neyslu, vandaðri innkaupum og markvissari flokkun. Einnig þarf sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum með því að leita leiða til að draga úr kostnaði sem að öllum líkindum felst í að draga úr þjónustu.
Fyrirsjáanlegar eru tvær breytingar, önnur er sú að fækka vikulegum opnunardögum á söfnunarstöðinni á Hurðarbaksholti úr þremur í tvo og hins vegar að fjarlægja söfnunargáma undir gler og málma á grenndarstöðvum þar sem lítið safnast í þá og setja í staðin gáma frá Grænum skátum sem taka á móti skilaskildum umbúðum. Áfram verður tekið á móti málmum og gleri á söfnunarstöðinni að Hurðabaksholti. Ekki er gert ráð fyrir að fækka opnunardögum á söfnunarstöðinni fyrr en í haust.
Gjaldskráin á söfnunarstöðinni hefur líka verið einfölduð, nú kostar hver rúmmeter að gjaldskyldum úrgangi 6.500 kr. Hægt er að greiða fyrir hálfan og fjórðung úr rúmmeter.
Erfiðlega hefur gengið að rukka notendur söfnunarstöðvarinnar að Hurðabaksholti, þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að húsráðendur í Kjósarhreppi borga fast gjald með fasteingagjöldunum sínum til reksturs stöðvarinnar en fá í staðin kort sem gefur þeim gjaldfrjálsa losun á annars gjaldskyldum úrgangi. Mikilvægt er að þeir sem mæta á söfnunarstöðina séu með kortin með sér eða mynd af þeim í símanum til að skanna við komu á stöðina, að öðrum kosti þarf viðkomandi að greiða fyrir þann gjaldskylda úrgang sem hann afsetur.
Heimili og frístundahús fá 5 rúmmetra gjaldfrjálsa.
Lögbýli fá 5 rúmmetra gjaldfrjálsa.
Rekstraraðilar fá 10 rúmmetra gjaldfrjálsa.
Vakin er athygli á því að rekstraraðilar greiða tvöfalt gjald og lögbýli greiða sérstakt gjald. Þar heimili og lögbýli eru á sömu kt: fær sá aðili samanlagt 10 rúmmetra.
Hvað er gjaldfrjáls úrgangur?
Umbúðir úr slettum pappa, plastumbúðir, heyrúlluplast, plastpokar undan áburði, bylgjupappi, hjólbarðar, raftæki, spilliefni, málmar, dagblöð, tímarit og skrifstofupappir, föt og textíll, refhlöður, rafgeymar.
Þessi úrgangur má aldrei lenda í blönduðum úrgang af mörgum ástæðum og þá helst vegna þess að það kostar samfélagið og þar með þig mikið af peningum og svo erum við að tala um umhverfis-sjónarmiðin.
Stefnt er að því að kortin verði tilbúin í mars eða apríl og þá verða þau send á skráð heimili í Kjósarhreppi, aðrir geta nálgast þau á skrifstofu sveitarfélagsins í Ásgarði. Það verður nánar auglýst þegar þar að kemur. Stefnt er að því að gefa út rafræn kort þegar líða fer á árið, vinna við það stendur yfir.
Markmið sveitarfélagsins er að geta dregið úr kostnaði vegna úrgangmála en til þess þurfum við öll að standa saman.
Til umhugsunar má benda á að það kostar 56 kr. á kg. að farga óflokkuðum úrgangi, þá erum við ekki að tala um flutninginn og ef við erum að setja plast og pappa sem við annars fáum greitt fyrir í óflokkaðan úrgang, þá erum við að henda peningum. Tökum höndum saman og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr kostnaði.
Sveitarstjóri