Fara í efni

Breyting á sorphirðudagatali vegna aukins kostnaðar

Deila frétt:

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Umfangsmiklar breytingar urðu að lögunum í júní 2021 ásamt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald. Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.

Kjósarhreppur er vel á veg komin í innleiðingu laganna en framkvæmdinni fylgir óneitanlega verulega aukinn kostnaður. Þessi kostnaðaraukning mun leiða til hærri þjónustugjalda á hverja fasteign, spurningin er bara hversu mikil hækkunin verður, en það geta íbúar og sumarhúsaeigendur haft áhrif á.

Í vor var farið í að flokka lífrænan úrgang við hvert heimili og í þeim tilgangi sett ein tvískipt tunna undir almennan og lífrænan úrgang við hvert heimili og eldri tunna undir almennan úrganginn fjarlægð.

Frá þeim tíma hefur tvískipta tunnan verið losuð á tveggja vikna fresti en nú hefur verið ákveðið að gera tilraun með að losa tunnuna á þriggja vikna fresti til að reyna að draga úr kostnaði, mögulega verður farið í losa á fjögurra vikna fresti þegar fram líða stundir. Íbúar sem eru með meiri úrgang en rúmast innan tunnunnar eru hvattir til að endurskoða flokkunina sína, ef það dugar ekki til er hægt að fara með umfram úrgang á næstu grenndarstöð eða móttökustöð.

Annað sem íbúar geta líka gert, fyrir utan að draga úr neyslu, er að ganga vel og skipulega um grenndarstöðvar og móttökustöðina að Hurðarbaksholti.

Það er allra hagur að hægt sé að draga úr úrgangslosun bæði fjárhagslegur og umhverfislegur. Sveitarsjóði er ekki heimilt að greiða þennan málaflokk niður með öðrum tekjum og því þurfa þjónustugjöld að standa undir kostnaði.

Frá 1. nóvember verður tunna undir almennan og lfírænan úrgang losuð á þriggja vikna fresti, nýtt dagatal verðu birt á kjos.is

Sveitarstjóri