Fara í efni

Breyting á deiliskipulagi - Hvamms og Hvammsvíkur

Deila frétt:
Hvammsvík
Hvammsvík

Kjósarhreppur auglýsir skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Auglýsing um skipulagslýsingu vegna breytingar á deiliskipulagi Hvamms og Hvammsvíkur, Kjósarhreppi

Skipulagslýsingu má finna hér

Gerð hefur verið svokölluð skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Hvamms og Hvammsvíkur í Kjósarhreppi, sem samþykkt var 28. ágúst 2000 . Á fundi sveitarstjórnar Kjósarhrepps þann 5. nóvember 2019 var samþykkt að kynna skipulagslýsinguna í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tilefni deiliskipulagsbreytinganna eru áform um uppbyggingu, en fyrirhugað er að byggja sjóböð og tilheyrandi aðstöðu fyrir baðgesti, svo sem búningsaðstöðu, veitingasölu og bílastæði. Þjónustuhús verður fyrir allt að 150 manns og verður bílaumferð og fjöldi gesta takmarkaður hverju sinni til að tryggja sem besta upplifun gesta og hlífa náttúru staðarins fyrir of miklum ágangi.

Á jörðinni Hvammsvík er í aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 skilgreindur reitur fyrir verslun og þjónustu, VÞ3 Hvammsvík. Um hann segir í aðalskipulaginu: „Gert er ráð fyrir byggingu hótels, með gistingu fyrir allt að 50 gesti ásamt veitingastað, ylströnd, aðstöðu til sjósunds og gerð bátaskýlis. Einnig þjónustu við golfvöll í Hvammsvík. Stærð svæðis er allt að 5 ha“.

Reiturinn er sýndur vestan við Hvamm í aðalskipulaginu en gera þarf óverulega breytingu á aðalskipulaginu samhliða deiliskipulagsbreytingu og færa VÞ3 austur fyrir Hvamm, þar sem uppbyggingin er fyrirhuguð. Í aðalskipulaginu er Hvammur/Hvammsvík skilgreind sem mögulegir viðkomustaðir ferðamanna.

Á gildandi deiliskipulagsuppdrætti eru sýndir byggingarreitir fyrir 5 orlofshús á vegum staðarhaldara á hverfisvernduðu svæði vegna þjóð- og stríðsminja. Verða þessir byggingarreitir, staðsetning þeirra og skipulag á þessu svæði endurskoðað við breytingu deiliskipulagsins, en bílastæði eru áformuð á þessum slóðum.

Skipulagslýsingin verður til sýnis í anddyri hreppsskrifstofu  Kjósarhrepps í Ásgarði frá og með fimmtudeginum 14. nóvember 2019 til og með 28. nóvember 2019.  Tillögurnar verða jafnframt birtar á heimasíðu Kjósarhrepps, kjos.is.    

Athugasemdir eða ábendingar vegna skipulagslýsingarinnar  skulu vera skriflegar og berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 28. nóvember 2019.  Póstlagðar athugasemdir berist á skrifstofu Kjósarhrepps að Ásgarði Kjós, 276 Mosfellsbæ, eða með tölvupósti á netfangið  skipulag@kjos.is

Eftir kynningu á skipulagslýsingunni verður fjallað um deiliskipulagið og það kynnt samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.