Bréf frá sveitarstjórn í tilefni af Vordögum í Kjósinni
Kjósin okkar er einstaklega falleg sveit sem við getum verið stolt af, þó má alltaf gera betur.
Dagana 25.-28. apríl verða haldnir Vordagar í Kjósinni. Tilgangur daganna er að hvetja alla til að huga að umhverfi sínu, hvort sem það er með því að taka til hendinni eða bara að njóta útivistar í sveitinni. Við ætlum að byrja smátt en vonandi munu þessir Vordagar festa sig í sessi og viðburðum fjölga ár frá ári.
Hér má sjá örfáar tillögur að verkefnum sem hægt væri að vinda sér í á Vordögum:
- Fara í sitt nærumhverfi með poka og tína upp rusl sem hefur fokið af stað og lent undir snjó áður en það hverfur í gras og gróður.
Stóri plokkdagurinn er 28. apríl og ekkert því til fyrirstöðu að taka forskot á hann.
- Bændur gætu farið út að tína rúlluplast sem alltaf vill strjúka frá eigendum sínum yfir vetrartímann.
- Gamlar girðingar sem ekki eru í notkun eru aldrei fallegar og því eru Vordagar góður tími til að fjarlægja þær og koma á gámaplanið.
- Vordagar eru gott tækifæri til að drífa sig út í náttúruna og ganga á fjöll eða bara fá sér léttan göngutúr á jafnsléttu. Svo er líka alltaf gaman að fara í fjöruferð. Ekki verra að hafa með sér poka :)
Sveitarstjórn mun að sjálfsögðu leggja hönd á plóg og á Vordögum ætlum við til dæmis að fara í gegnum nytjagáminn á gámaplaninu og taka til í kringum Ásgarð.
Við vonum að sem flestir taki þátt í þessu verkefni með okkur og mæti svo að loknum góðum tiltektardegi á planið við Ásgarð laugardaginn 27. klukkan 16:00 í grillaðar pylsur.
Með vorkveðju,
Sveitarstjórn Kjósarhrepps