Ársreikningur Kjósarhrepps 2022
Sveitarstjórn Kjósarhrepps samþykkti ársreikning 2022 við síðari umræðu á 276. fundi sínum sem haldinn var 15. maí sl.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 424 millj.kr. samkvæmt ásreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 306 millj.kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var neikvæð um 19,9 millj.kr og í A hluta neikvæð um 8,7 millj.kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3,7 millj.kr. fyrir A hluta og jákvæðri 3,7 millj.kr. fyrir A og B hluta. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 309,8 millj.kr samkvæmt efnahagsreikningi en eigið fé A hluta nam kr. 412,1 millj.kr.
Laun og launatengd gjöld á árinu námu alls 88,3 millj.kr. en í A hluta um 69,5 millj.kr. Stöðugildi hjá sveitarfélaginu voru um 4,8 í árslok.
Íbúum Kjósarhrepps fjölgaði um 30 á árinu 2022 eða um 12%. Þann 1. desember 2022 voru íbúar 285.
Álagningarhlutfall útsvars var 13.75% en lögbundið hámark á árinu 2022 var 14.52. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A flokki var 0,35% en lögbundið hámark þess er 0,50%, í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 0,35% en lögbundið hámark þess er 1,32%.
Ljóst er að fjármagnskostnaður var mun meiri en gert var ráð fyrir í áætlun fyrir árið 2022 ásamt auknum kostnaði við innleiðingu laga um úrgangsmál sem veldur meiri halla en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
Sveitarstjórn staðfestir með undirritun sinni ársreikning við síðari umræðu og þakkar starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir sín störf í þágu sveitarfélagsins.