Fara í efni

Áríðandi skilaboð frá hitaveitunni

Deila frétt:

Við óskum viðskiptavinum okkar gleðiríkrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.  Um leið minnum við á að um áramót verður mjög kalt í veðri og heitavatnsnotkun í hámarki og því mikilvægt að fara sparlega með heita vatnið.

Kjósarveitur hafa vaxið mjög hratt síðustu misseri og notkun á heitu vatni hefur aukist mikið. Þá hefur borun eftir heitu vatni tafist og borhola sem áætlað var að kæmist í gagnið á árinu 2024 verður ekki komin inn fyrr en í fyrsta lagi haustið 2025. Við aðstæður eins og verða um áramót þegar -20°C frosti er spáð er veitan á fullum afköstum. Mikilvægt er að allir íbúar svæðisins hjálpist að við að fara vel með heita vatnið á köldum dögum til að draga úr álagi á veituna þannig að ekki komi til alvarlegs heitavatnsskorts í kuldatíð.

Hér að neðan eru nokkur góð ráð um hvernig við sýnum ábyrga heitavatnsnotkun:

Hitakerfi
Mælum við með að fá fagfólk til að yfirfara hitakerfi hússins reglulega. Þannig nýtum við orkuna betur.

Heitir pottar
Fátt er betra en að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu vetrardagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur í heita pottinum, þá er sturtan betri kostur.

Stillingar á ofnum
Stillum ofna á óskahita hvers herbergis. Ofn ætti að vera heitastur efst og kólna eftir því sem neðar dregur. Hyljum ekki ofna með gardínum eða húsgögnum, því þannig hindrum við hitastreymi sem kemur í veg fyrir jafna orkudreifingu í herberginu.

Opnir gluggar
Förum vel með varmann, athugum með þéttingar á gluggum og hurðum og tryggjum að hitakerfið sé að virka rétt. Ef við þurfum að lofta út er betra að hafa glugga vel opinn í tíu mínútur og loka honum svo í stað þess að hafa gluggann opinn allan daginn.

Óþarfa rennsli
Ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga er heita vatnið. Oft gleymist að þessi orka telst til munaðar víða um heim. Á Íslandi hefur notkun á heitu vatni aukist mikið undanfarin ár og er því áskorun fyrir hitaveitur að anna eftirspurn. Berum virðingu fyrir þeirri auðlind sem jarðhitavatn er og látum það ekki renna að óþörfu.

Framkvæmdastjóri Kjósarveitna
Axel Jóhannesson