Alþjóðlegi rafrusldagurinn 14.október 2024: Leitum að rafrusli – finnum, endurvinnum og gefum verðmætum nýtt líf!
Söfnunarátak í september/október. Í ár er slagorð vitundarvakningarinnar „Leitum að rafrusli – finnum, endurvinnum og gefum verðmætum nýtt líf!“ Áherslan er lögð á biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum, oft án þess að gera sér grein fyrir að þessir hlutir innihalda verðmæt efni sem gætu öðlast nýtt líf. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu - en hlutirnir sem oftast gleymast í ruslaskúffunni eru lítil rafeindatæki: Gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar.
Í ár er markmiðið að hvetja fólk til að fara í gegnum heimili sín, leita að ónotuðum eða biluðum tækjum og afhenda þau á næstu móttökustöð fyrir slíkan úrgang. Með því geta allir lagt sitt af mörkum til að draga úr mengun, vernda auðlindir jarðar, spara orku og draga úr koltvísýringsmengun. Tekið er á móti raftækjum á gámplaninu að Hurðarbaksholti endurgjaldslaust.