Fara í efni

Kjósarhreppur og nútíminn

Deila frétt:

 

Ljósleiðari í Kjós

Um árabil hefur staða fjarskiptamála í Kjósarhreppi verið með þeim hætti að íbúar, fyrirtæki og gestir sveitarfélagsins hafa búið við óöryggi í nútíma fjarskiptum.   Fjarskiptamál í Kjós hafa verið borin saman við stöðu fjarskiptamála í nágrannasveitarfélögum og hefur Kjósarhreppur ekki staðist þann samanburð.  Það hefur ekki farið framhjá forsvarsmönnum Kjósarhrepps að knýjandi hefur verið að virkja hraðvirka fjarskiptatengingu hér í sveit til að sveitungar og aðrir í sveitarfélaginu sitji við sama borð og aðrir landsmenn.

 

Sveitarstjórn Kjósarhrepps tók þá ákvörðun að leggja ídráttarrör fyrir ljósleiðara samhliða lagningu á hitaveitu í sveitarfélaginu og var byrjað á lagningu á síðasta ári.   Áætlað er að ljúka við lagningu ljósleiðarans um stærstan hluta sveitarfélagsins á þessu ári.   Kjósarhreppur er metnaðargjarnt sveitarfélag en hefur færri íbúa en flest önnur sveitarfélög á landinu.  Af þeim ástæðum hefur sveitarfélagið þurft að sníða sér stakk eftir vexti.  Sveitarstjórn Kjósarhrepps þarf að gæta að landslögum þegar ráðist er í skuldbindingar vegna framfaramála.  Fjárhagur og skuldbindingar sveitarfélagsins, m. a. vegna fyrirhugaðrar ljósleiðaravæðingar, verða að vera innan lögskipaðra ráðdeildarmarka.

 

Með þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að leggja ljósleiðara um stærstan hluta sveitarfélagsins og nýta þá hagkvæmni sem fylgir samlegðaráhrifum með hitaveitulögn í sveitinni er það ætlun sveitarfélagsins að auka lífsgæði og vinnuaðstöðu íbúa, fyrirtækja og gesta.

 

Með lögum um fjarskiptasjóð nr. 132/2005 var ákveðið af Alþingi Íslending að að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar.  Hlutverk fjarskiptasjóðs er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna.  Á fjárlögum síðustu ára hefur verið gert ráð fyrir því að styrkja sérstaklega minni sveitarfélög til að ráðast í uppbyggingu slíkra stofnkerfa og hefur Alþingi þá ekki síst horft til þess að fjarskiptafyrirtæki á almennum markaði sjá sér ekki hag í miklum fjárfestingum í minni sveitarfélögum.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum Kjósarhrepps er ráð fyrir því gert að heildarkostnaður sveitarfélagsins af uppbyggingu ljósleiðarakerfis í sveitarfélaginu verði um kr. 150.000.000,- Í þeim áætlunum er ekki gert ráð fyrir lagningu ljósleiðara inn í Brynjudal.  Það er þó markmið sveitarfélagsins að Brynjudalur sitji við sama borð og aðrir í fjarskiptamálum á komandi árum.

 

Kjósarhreppur hefur sótt um styrk til fjarskiptasjóðs og fengið mjög jákvæðar afgreiðslur frá sjóðnum. Samþykktur styrkur fjarskiptasjóðs til ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu er nú kr. 33.000.000,- vegna ársins 2016 og 2017.   Það er ætlun Kjósarhrepps að eiga ljósleiðarastofnkerfið í sveitinni og hefur sveitarfélagið þegar stofnað einkahlutafélagið „Leiðarljós ehf.“ til að halda utan um þá eign. 

 

Ljósleiðaravæðing og tenging fasteigna við ljósleiðara yrði ekki að veruleika í Kjósarhreppi nema notendur kerfisins greiði tengigjöld við fasteignir sínar í sveitarfélaginu.  Samkvæmt frumáætlun sveitarfélagsins er áætlað að kostnaður fasteignareiganda á hverja tengingu muni verða um kr. 250.000,- og er þá innifalið í því verði ljósleiðari að húsi, uppsetning endabúnaðs ljósleiðara hjá notenda auk virðisaukaskatts.  Í þessum áætlunum er gert ráð fyrir því að um 79 íbúðarhús og fyrirtæki tengist stofnkerfinu og um 260 sumarhús. Stærri sveitarfélög en Kjósarhreppur hafa gert fasteignareigendum að greiða hærra stofngjald en stærstu sveitarfélög landsins, sem sum hafa ekki innheimt sérstök inntökugjöld, standa mun betur að vígi gagnvart fjarskiptafyrirtækjum sem huga nær eingöngu að markaðsmálum.

 

Á kjos.is fer nú fram könnun þar sem leitað er eftir svörum frá fasteignaeigendum í Kjósarhreppi við því hvort vilji þeirra standi til að tengjast ljósleiðarastofnkerfinu . Nú hafa aðeins um 200 aðilar svarað, 90% segja já en 10% nei.  Það er mikilvægt fyrir Kjósarhrepp að fá góð viðbrögð við þeirri könnun frá fasteignareigendum og svör þeirra  við þeim spurningum sem í könnunni felst. Könnunin er opin til 10. mars.

 

Verði fleiri þátttakendur í verkefninu en áætlað er munu stofngjöld fasteignaeigenda verða minni.  Það er mat sveitarfélagsins Kjósarhrepps að lagning ljósleiðarastofnkerfis um sveitarfélagið sé nauðsynleg langtíma fjárfesting sem ætluð er til þess að gera íbúum, fyrirtækjum og gestum í sveitarfélaginu, jafn hátt undir höfði í fjarskiptamálum og öðrum aðilum í öðrum sveitarfélögum á Íslandi. Guðný G. Ívarsdóttir sveitarstjóri.