Fara í efni

Gleðifréttir frá Kjósarveitum

Deila frétt:

 

Kæru sveitungar og viðskiptavinir Kjósarveitna.
Það hefur ekki farið fram hjá stjórn Kjósarveitna að einhverjir sveitungar hafa örlitlar en sem betur fer óþarfar áhyggjur af stöðu og rekstri fyrirtækisins. Þeir hafa haft samband við stjórnarmenn í framhaldi af nýbirtum  ársreikningi og spurt hvað tölurnar í honum þýði. Satt að segja er staðan og framtíðin björt.

Hér verður varpað skýru ljósi á framkvæmdirnar, kostnað við framtakið, skuldastöðu og rekstrarhorfur Kjósarveitna.


Þegar við gerðum áætlanir fyrir framkvæmdina árið 2015 með aðstoð öflugra ráðgjafa um framkvæmdir og rekstur benti allt til að þetta yrði framkvæmd upp á ríflega milljarð króna þegar allt væri talið. Borun fyrir heitu vatni, framkvæmdir við stofnlagnir og heimæðar, eftirlit með framkvæmdum, samningagerð við landeigendur og fjármálafyrirtæki og samskipti við stofnanir og ráðuneyti varðandi styrki o.fl. Ekki mátti gleyma fjármagnskostnaði á framkvæmdatímanum. Bókfært tap 2016 og 2017 er hluti af fjárfestingunni, óhjákvæmilegur kostnaður við rekstur á uppbyggingartímanum sem eins hefði mátt eignfæra sem fjárfestingu. Góðu fréttirnar eru að áætlanir okkar um kostnað stóðust nokkuð vel. Sumt varð dýrara en annað ódýrara þótt vandað væri til framkvæmdanna. Frábær árangur.  

Hvernig í ósköpunum tókst að fjármagna rúman milljarð hjá Kjósarveitum, sem lítið sveitarfélag stendur á bak við?

Lausnin byggðist á fjórum stoðum: Framlagi hreppsins, stofngjöldum notenda, styrki frá ríkissjóði og loks lántöku fyrir því sem vantaði til að fjármagna ævintýrið að fullu.  
Framlag hreppsins í borholum og landi var 168 milljónir (hlutafé). 
Góð þátttaka eigenda íbúðarhúsa, fyrirtækja og sumarhúsa skipti gríðarlegu máli til að gera framkvæmdina gerlega. Við höfðum reiknað út að það þyrfti þátttöku nær allra íbúðarhúsa og 60% sumarhúsa svo  verkefnið væri mögulegt. Þátttaka íbúa er orðin 93% og sumarhúsa 73%. Þetta er umfram björtust vonir. Komnar voru 375 milljónir í stofngjöld í lok síðasta árs og meira kemur á þessu ári. 
Ríkið greiðir veitunni styrk fyrir hvert  íbúðarhús sem tengist veitunni. Það jafngilti 12 faldri árlegri niðurgreiðslu á rafmagnsnotkun fyrir hvert hús, sem hættir að fá styrki. Stjórn Kjósarveitna beitti sér fyrir því að Alþingi samþykkti hækkun á styrknum um 33% í 16 falda árlega niðurgreiðslu. Um áramót var kominn styrkur að fjárhæð 152 milljónir og stefnir hann í 190 milljónir. 

Glöggir sjá að nettóskuldir Kjósarveitna voru um 435 miljónir í árslok. Þegar vatnið var farið að renna gerði stjórn Kjósarveitna um mitt síðasta ár drög að 10 ára rekstraráætlun.  Fyrstu tvö árin ætla að standast, reyndar stefnir árið 2018 í að gera heldur betur enda vildi stjórnin sýna fyllastu varkárni í áætlanagerðinni. Þann 24. apríl sl. var langtímafjármögnun lokið að fullu. Lánastofnanir treysta okkur og áætlununum. Það tókst að semja um stórlækkun vaxta og hóflega greiðslubyrði. Langtímalánin verða nærri 450 milljónir og lánstíminn um 16 ár. Kjósarveitur munu,  ef ekkert óvænt gerist,  eiga auðvelt með að standa undir öllum gjöldum þar á meðal vöxtum og afborgunum og gætu átt skuldlausa virkjun eftir 15 ár. 

  Ekki má láta hjá líða að nefna þýðingu þess að stjórnin og starfsmenn Kjósarveitna stóðu saman sem einn maður alveg frá upphafi. Sama á við um hreppsnefndina alla. Aldrei stóð á stuðningi við verkefnið. Samstaðan var fyrir öllu. Aldrei kom hik á undirbúning og framkvæmdir. Hröð og fumlaus framkvæmd hefur lækkað vaxtagreiðslur og tryggt bjarta framtíð.

 

Til hamingju með flottu hitaveituna Kjósverjar!

Stjórn Kjósarveitna