Kjósarhreppur - Myndir

 

Reglur um liðveislu í Kjósarhreppi

 

I. Kafli - Markmið, hlutverk og skipulag liðveislu

 

1. gr. Markmið liðveislu

Markmið liðveislu er að efla viðkomandi til sjálfshjálpar, veita honum/henni persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Einnig í sérstökum tilvikum með frekari liðveislu að koma í veg fyrir dvöl á stofnun.

 

2. gr. Réttur til liðveislu

Heimilt er að veita liðveislu þeim sem eru fatlaðir eins tilgreint er í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, liðveisla er fyrir fatlað fólk frá aldrinum 6 ára, með lögheimili í Kjósarhreppi, sem þarf persónulegan stuðning og aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun. Liðveisla er ekki veitt einstaklingum sem búa  í búsetuúrræðum þar sem veitt er sólarhringsþjónusta.

Ennfremur má veita liðveislu börnum á aldrinum 6-17 ára sem hafa vægari þroskaraskanir samkvæmt 24.gr. laga nr. 59/1992 og uppfylla ofangreind skilyrði um félagslega einangrun, glíma við vandamál sem gerir þeim erfitt fyrir um tengsl og félagsleg samskipti s.s. börn með ADHD/ ofvirkni og athyglisbrest, einhverfu eða glíma við félagslega einangrun.

Liggja skal fyrir greining frá Greiningarstöð ríkisins, Svæðisskrifstofu fatlaðra, geðlæknum eða öðrum sérfræðingum eftir því sem við á.

 

3. gr. Stjórn og yfirumsjón

Félagsmálanefnd fer með stjórn liðveislu á vegum Kjósarhrepps og annast mat á þjónustuþörf.

 

4. gr. Samþætt þjónusta

Liðveisla er hluti af samþættri þjónustu við fatlað fólk á vegum félagsmálanefndar Kjósarhrepps.  Kjósarhreppur sér um ráðningu starfsmanna, fræðslu og þjálfun þeim til handa, fer með daglega stjórn á starfseminni og veitir liðveitendum ráðgjöf. Félagsmálanefnd leggur mat á þjónustuþörf og ákvarðar um þjónustu innan ramma gildandi reglna, sem félagsmálanefnd hefur staðfest.

Ákvarðanir um þjónustu og fyrirkomulag eru settar í þjónustusamning sem er undirritaður af þjónustuþega og liðveitenda.

 

II. Kafli - Framkvæmd þjónustunnar

 

5. gr. Umsókn um liðveislu

Umsókn um liðveislu skal vera skrifleg eða rafræn, sem hægt er að nálgast á heimsíðu Kjósarhrepps www.kjos.is. Félagsmálanefnd metur þjónustuþörf umsækjanda. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda svo og maka ef það á við. Upplýsingar sem óskað er eftir eru m.a. um persónulegar aðstæður og lögheimili. Þá skal umsækjandi jafnframt leggja fram vottorð sérfræðings sem staðfestir þörf umsækjanda fyrir þjónustuna. Í vottorðinu skal koma fram eðli fötlunar sbr. 2. gr. þessara reglna. Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fyrir sína hönd.

Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur félagsmálanefnd aflað þessara gagna skriflega eða með símatali við sérfræðing með samþykki umsækjanda

.

6. gr. Skilgreining á fötlun og þjónustu

Félagsmálanend sem hefur umsjón með liðveislu metur þörf fyrir liðveislu á grundvelli umsóknar. Liðveisla samkvæmt reglum þessum er tvenns konar:

1.      Mikil fötlun, það er að segja einstaklingur sem er alfarið háður hjálp annarra og skal liðveisla vera  16-20 klst. á mánuði.

2.      Minni fötlun og skal liðveisla vera mest 10-14 klst. á mánuði.

 

7. gr. Tímabil samþykktar

Samþykktir um liðveislu skulu vera tímabundnar og færðar til bókar. Fyrsta samþykkt skal að jafnaði vera til 3 mánaða.  Þá skal umsókn metin að nýju og framlengd, ef ástæða þykir til. Endurnýjaðar samþykktir skulu að hámarki vera til 6 mánaða. Þó skal heimilt að ákveða liðveislu til 9 mánaða, ef liðveislan er tengd annarri tímabundinni þjónustu svo sem skólavist.

 

8. gr. Kostnaður vegna liðveislu

Ekki er innheimt gjald fyrir liðveislu. Þjónustuþegi greiðir þó sjálfur eigin útlagðan kostnað.

III. Kafli - Málsmeðferð, málsskot og gildistími reglna

9.gr. Málsmeðferð og málskot

Málsmeðferð skv. reglum þessum fer að ákvæðum málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

10. gr. Rökstuðningur synjunar

Ef umsókn er synjað fær umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar.

 

11. gr. Álitsumleitan

Í samræmi við 3.gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 hefur ráðuneytið yfirstjórn í málefnum fatlaðra. Umsækjandi sem er ósáttur við ákvörðun félagsmálanefndar getur því leitað álits ráðuneytisins

 

12. gr. Gildistími

Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum sveitarfélaga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, samþykktar á fundi hreppsnefndar Kjósarhrepps þann 4. september 2018 og öðlast þegar gildi.