Kjósarhreppur - Myndir

Reglur um félagslega heimaþjónustu í Kjósarhrepp, sbr. 29. gr.
laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.


 

1.gr. Markmið

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður.

 

2.gr. Hlutverk

Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er:

·        Veita aðstoð við heimilishald.

·        Veita aðstoð við persónulega umhirðu sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar sem lýtur að meðhöndlun sjúkdóma og öðrum þáttum er þarfnast viðveru eða eftirlits heilbrigðisstarfsfólks.

·        Veita félagslegan stuðning.

·         Veita aðstoð við umönnun barna og ungmenna með hliðsjón af aðstæðum þegar um erfiðar fjölskylduaðstæður er að ræða, sbr. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, 8. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, 21. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

3.gr. Réttur til félagslegrar heimaþjónustu

Skilyrði til þess að geta fengið félagslega heimaþjónustu er að umsækjandi hafi lögheimili í Kjósarhreppi búi í heimahúsi og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, öldrunar, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar.

 

4.gr. Stjórn

Félags- æskulýðs- og jafnréttisnefnd fer með stjórn félagslegrar heimaþjónustu á vegum Kjósarhrepps.

 

5.gr. Umsókn um félagslegrar heimaþjónustu

Umsókn um félagslegrar heimaþjónustu skal vera skrifleg á þar til gerð eyðublöð sem fást á skrifstofu hreppsins og inná www.kjos.is. Umsóknum skal skilað til oddvita sem vísar henni til félagsmálanefndar til afgreiðslu.

 

6.gr. Mat á þörf fyrir þjónustu

Áður en aðstoð er veitt skal meta þjónustuþörf, þegar við á í samráði við heilsugæslulækni, heimahjúkrun eða svæðisskrifstofu fatlaðra. Meta skal hvert einstakt tilvik og skal leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Læknisvottorð skal liggja fyrir ef ásstæða þykir til.

Í sérstökum tilfellum, svo sem þegar um er að ræða tímabundin veikindi eða önnur óvænt áföll, er heimilt að samþykkja félagslega heimaþjónustu tímabundið. Þjónustan skal þá samþykkt í þrjá-sex mánuði í senn. Við endurnýjun er heimilt að samþykkja þjónustu í allt að tvö ár.

7.gr. Samstarf og þjónustusamningur

Félagsmálanefnd skal setja reglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu, þar sem m.a. eru tiltekin verkefni starfsmanna, skyldur þeirra og réttindi. Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir verða vísir í starfi sínu um einkamál manna og heimilishald.

 

8.gr. Þjónustutími

Heimaþjónusta skal að jafnaði veitt á dagvinnutíma frá mánudegi til föstudags. Þjónusta utan þess tíma skal eingöngu veitt ef fyrir liggur samþykki Félagsmálanefndar, að undangengnu mati á aðstoðarþörf sbr.6.gr.

 

9.gr. Starfsmenn

Starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu taka laun skv. samningi við sveitarfélagið.

10.gr. Greiðsla fyrir félagslega heimaþjónustu

Greitt er fyrir félagslega heimaþjónustu samkvæmt gildandi gjaldskrá sem samþykkt er í félags- æskulýðs- og jafnréttisnenfd árlega.

Þeir sem eru einungis með tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins eða tekjur sem samsvara þeirri upphæð eiga rétt á að sækja um lækkun eða niðurfellingu á gjaldi fyrir heimaþjónustu.

 

11. gr. Rökstuðningur synjunar

Ef umsókn er synjað fær umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Samhliða því skal hann fá skriflegar upplýsingar um áfrýjunarrétt sinn.

 

12. gr. Áfrýjun
Umsækjandi um félagslega heimaþjónustu getur áfrýjað til félagsmálanefndar Kjósarhrepps. Skal það gert skriflega innan fjögurra vikna. Ákvörðun félagsmálanefndar má áfrýja til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því að umsækjandi barst vitneskja um ákvörðun.

 

11.gr. Gildistími

Reglur þessar samkvæmt lögum nr.40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga,voru samþykktar í hreppsnefnd Kjósarhrepps þann 4. september 2018 og öðlast þegar gildi.