Kjósarhreppur - Myndir

Fréttir

17. febrúar 2019

Ályktun Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, samþykkt á aðalfundi

Ályktun Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð,

samþykkt á aðalfundi félagsins 9. 2. 2019

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð skorar á Umhverfisstofnun sem starfsleyfisgjafa og eftirlitsstofnun og Faxaflóahafnir sem eiganda Grundartanga, að halda skaðsemi vegna stóriðju á Grundartanga í algjöru lágmarki með auknu eftirliti og grunnrannsóknum á áhrifum eiturefna á umhverfið. Loftgæðamælingar vegna flúors og brennisteins eru í skötulíki og útsleppi í stórum stíl frá Elkem Ísland er leikur að heilsu manna og dýra. Þar sem mengunartopparnir valda mestum skaða er engin afsökun að útsleppið kunni að rúmast innan leyfilegs ársútsleppis.


Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að taka nú þegar upp mælingar á mengandi efnum sem stafa frá stóriðjunni á Grundartanga og geta skilað sér inn í matvæli frá landbúnaði á svæðinu. Ágiskanir eru ekki boðlegar og áreiðanlegar niðurstöður verða ekki til nema með endurteknum vísindalegum mælingum. Umhverfisvaktin minnir á mengunarslys hjá Norðuráli sumarið 2006 en það haust mældist flúor í kjálkum lamba margfalt meiri en haustið 2005. Afurðir lambanna fóru á markað án nokkurra eiturefnamælinga. Iðjuverin sem sjá sjálf um umhverfisvöktunina birtu niðurstöður flúormælinganna í apríl næsta ár. Þannig er staðan enn. Sé minnsti grunur um óæskileg efni í mætvælum eiga bændur og neytendur rétt á upplýsingum tafarlaust.


Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að birta allar niðurstöður umhverfisvöktunar vegna iðjuveranna á Grundartanga rafrænt jafnóðum og þær verða til á vef Umhverfisstofnunar, sveitarfélaganna við Hvalfjörð, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Kynningarfundir einu sinni á ári, til að kynna gamlar niðurstöður umhverfisvöktunar, eru úreltir og ómarkvissir.


Fundurinn bendir á þá óhugnanlegu staðreynd að ár eftir ár er verið er að vakta mæliþætti sem engin viðmiðunargildi eru til um í íslenskum reglugerðum og starfsleyfum. Þetta á t.d. við um flúor í kjálkum sauðfjár.


Fundurinn fer eindregið fram á að Umhverfisstofnun komi fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga, utan þynningarsvæða, vegna Berjadalsár sem er vatnsból Akraneskaupstaðar. Loftgæðamælistöð sunnan Hvalfjarðar verði einnig ávallt í notkun, en það er hún ekki nú. 

 

F.h. Umverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Ragnheiður Þorgrímsdóttir
formaður

meira...

16. febrúar 2019

Gámar fyrir landbúnaðarplast tæmdir 20.febrúar

 

Miðvikudaginn 20. febrúar nk, stefnir Gámaþjónustan á að koma í Kjósina

og tæma svokallaða plastgáma, sem eru eingöngu ætlaðir undir rúlluplast utan af heyrúllum, landbúnaðarplast til endurvinnslu.

 

Meðfylgjandi leiðbeiningarbæklingur frá Gámaþjónustunni fer vel yfir atriði

varðandi frágang og hvað megi fara í þessa gáma. 

 

Bæklingur Gámáþjónustunnar HÉR

 

Gott samstarf við bændur er lykilatriði til þess að vel takist til.

Starfsmenn Gámaþjónustunnar munu gefa bændum góð ráð varðandi söfnunina.

Vinnum vel saman og minnkum urðun endurvinnsluefna.

 

 

 

 

meira...

14. febrúar 2019

Helgi dýralæknir og bókasafnskvöld, 20.feb

 

Hestamannafélagið Adam stendur fyrir fyrirlestri

20. febrúar næstkomandi kl. 20:00 á bókasafnskvöldi.

 

Helgi Sigurðsson dýralæknir mun halda erindi sem heitir:

Fóðrun, tannröspun, hegðunarvandamál og tengdir kvillar.

 

Allir eru velkomnir, enginn aðgangseyrir.

 

Stjórn Adams

 

meira...

12. febrúar 2019

Viðvera byggingarfulltrúa

 

Jón byggingarfulltrúi verður ekki við í dag, þriðjudag 12. febrúar.

Verður við á morgun, miðvikudag 13. febrúar, kl. 11 - 16.

 

En viðvera verður í næstu viku skv. venju þriðjudag 10-18

 

 

 

meira...

12. febrúar 2019

Ungmennaráð - Þín skoðun skiptir máli! Vertu með

 

Stofnfundur Ungmennaráðs Kjósarhrepps


Þín skoðun skiptir máli!

Vertu með í ungmennaráði Kjósarhrepps!

Pizza og gos í Ásgarði föstudaginn 15. febrúar kl.18-20.

 

Dagskrá:

# Jana Lind Ellertsdóttir formaður Ungmennaráðs Bláskógarbyggðar kynnir hlutverk ungmennaráða sveitarfélaga og stýrir kosningu í trúnaðarstörf.

 # Hvað finnst þér? Þín skoðun skiptir máli!
# Hvað er lýðræði?
# Pizza og gos í boði Kjósarhrepps

 

Í hverju sveitarfélagi er starfrækt ungmennaráð og í Kjósarhreppi er

öllum unglingum á aldrinum 13-18 ára boðið á stofnfund.


 

Við hlökkum til að sjá þig!
Félags- æskulýðs- og jafnréttisnefnd Kjósarhrepps. 

 

 

 

meira...

11. febrúar 2019

Ljós í Kjós - hvað er að frétta?

 

Vinna er hafin við að blása ljósleiðaraþræðinum í þau rör sem voru lögð með hitaveitunni til þeirra sem sótt hafa um ljósleiðara.


Byrjað er á leggnum frá Kiðafelli um Morastaði, Miðdal og Eilífsdal, auk þess verður blásið í stofninn frá Kjalarnesi upp að Kiðafelli. 


Þegar þetta er skrifað eru Rafal-menn búnir að blása 3 kílómetrum af ljósleiðaraþræði í heimtaugar og gengur verkið mjög vel.

 

Í lok mars á að vera búið að blása ljósleiðaraþræði um svæðið sem lögð var hitaveita og verður þá í kjölfarið hleypt á allt kerfið í einu.

Þegar betur viðrar verður hægt að leggja rör til þeirra sem ekki tóku hitaveitu en hafa sótt um ljósleiðara.
Búið er að gera sérsamning við Sýn ehf, varðandi netsamband fyrir Brynjudal og Fossá, þar til þangað verður lagður ljósleiðari.

 

Reikningar vegna stofngjalda verða sendir út um miðjan febrúar – þeir sem ætla að vera með en hafa ekki sótt um verða að gera það hið snarasta, ef þeir ætla sér að vera með núna.
Ljóst er að kostnaður mun verða meiri síðar, þó ekki liggi nákvæmlega fyrir í dag hversu mikið stofngjaldið muni hækka.

 

Búið er að opna upplýsingarsíðu varðandi ljósleiðarann

www.leidarljos.net
– einnig er hægt að fara inn á þá síðu í gegnum undirsíðu hér til vinstri 

Leiðarljós ehf - ljósleiðari

 

Fólk er hvatt til að kynna sér sérstaklega undirsíðuna -  Spurt&Svarað: https://www.leidarljos.net/spurt-og-svarad
Inn á þessari síðu verður leitast til að koma sem mestum upplýsingum til viðskiptavina Leiðarljóss ehf á sem skjótastan máta og hægt er að senda inn fyrirspurnir/ábendingar.

 

Stjórn Leiðarljóss ehf

og framkvæmdastjóri

 

 

 

 

 

meira...

6. febrúar 2019

Taize messa í Reynivallakirkju næsta sunnudag

 

 

 Sunnudaginn 10. febrúar, kl. 14

verður taize messa í Reynivallakirkju.


Slík messa á uppruna sinn að rekja til Suður Frakklands nánar tiltekið til bæjarins Taizé.
Kórfélagar, undir stjórn Guðmundar Ómars Óskarssonar organista, syngja taize sálma sem byggist á endurteknu söngstefi sem kallar fram hughrif kyrrðar.


Fermingarbörn aðstoða við helgihaldið.

 

Altarisganga fer fram.

 

Verið hjartanlega velkomin.
Sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur

 

 

meira...

2. febrúar 2019

Bíó kvöld og opið bókasafn - miðvikudag 6.feb

Snjólfur og týnda skiltið Ólafur Helgi/Darri og ófærðin
í kjósískum hversdagsleika

 

Misstir þú af þorrablótsmyndinni ?

- eða langar þig að sjá hana aftur ?

 

Þorrablótsmyndin 2019 verður endursýnd á næsta bókasafnskvöldi,

miðvikudaginn 6. febrúar, sýningin hefst kl. 20:15

Popp & kók & kósýheit

 

Bókasafnið opnar kl. 20

 

Hlakka til að sjá sem flesta

Svana umsjónarmaður bókasafnsins

 

 

meira...

1. febrúar 2019

Rafal ehf mun blása ljósleiðaranum í rörin

Ný stjórn Leiðarljóss ehf:
F.v.: Regína H. Guðbjörnsdóttir Lækjarbraut 2,

Karl M. Kristjánsson Eystri Fossá stjórnarformaður og
Rebekka Th. Kristjánsdóttir Stekkjarhóli 

Rafal menn mættir í vettvangsskoðun.

Vel keyrandi

 

Ný stjórn Leiðarljóss ehf, dótturfyrirtækis Kjósarhrepps, var kosin 10. janúar sl. og í kjölfarið var ráðinn nýr framkvæmdastjóri,  Sigríður Klara Árnadóttir.

 

Búið er að taka tilboði Rafals ehf  í blástur og tengingar ljósleiðarastrengja og voru menn frá þeim mættir í Kjósina í dag að skoða aðstæður á vettvangi.

Verkið leggst vel í þá og munu þeir hefja framkvæmdir strax í næstu viku.

Nánari upplýsingar um verkefnið og verkþætti verða kynntar eftir helgi.


Niðurstaða tilboðanna var eftirfarandi.

 

Bjóðandi:

Tilboðsupphæð

m. vsk

          % af

  kostnaðaráætlun

TRS, Selfossi

42.158.976 kr.

115%

SH leiðarinn, Hveragerði

32.977.552 kr. 

90%

Rafal, Hafnarfirði

28.034.349 kr.

 76%

Kostnaðaráætlun:

36.689.368 kr. 

100%

 

 

 

meira...

1. febrúar 2019

Íbúafundur um umferðaröryggi 9. febrúar í Félagsgarði

F.v.: Adam Finnsson, Guðbrandur Sigurðsson,

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Regína H. Guðbjörnsdóttir,

Katrín Halldórsdóttir, Hermann Ingólfsson,

Guðmundur Davíðsson og Kristjana E. Pálsdóttir

 

Íbúafundur verður haldinn laugardaginn 9. febrúar kl.12 í Félagsgarði en þar fá íbúar tækifæri til að koma með frekari ábendingar og upplýsingar um umferðaröryggisáætlun og ávinning verkefnisins.


Kjósarhreppur er nú að hefja vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélagsins og íbúa.
Í því felst að greina stöðuna, finna slysastaði, gera úrbætur, setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun. 
Mörg sveitarfélög í landinu hafa gert slíka áætlun eftir leiðbeiningum Samgöngustofu.
Kristjana Erna Pálsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf leiðir verkefnið ásamt Regínu Hansen Guðbjörnsdóttur hreppsnefndarfulltrúa  og formanns samgöngu – og fjarskiptanefndar í Kjós.
Hagsmunaaðilar í Kjós koma einnig að verkefninu eins og fulltrúi hestamanna, fulltrúi íbúa, björgunarsveitarinnar og bílstjóri skólabílsins. 

 

Vinnuhópinn skipa Guðmundur Davíðsson varaformaður Samgöngu- og fjarskiptanefndar, Hermann Ingólfsson skólabílstjóri og eigandi Kaffi Kjós, Guðmundur Páll Jakobsson ritari Samgöngu- og fjarskiptanefndar.
Adam Finnsson Björgunarsveitinni Kili, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir sérfræðingur í öryggis – og fræðsludeild Samgöngustofu,
Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar og Guðbrandur Sigurðsson aðalvarðstjóra í umferðadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

 

Íbúafundur verður haldinn laugardaginn 9. febrúar kl.12 í Félagsgarði.

Hlökkkum til að sjá sem flesta - allir velkomnir !

 

 

meira...

31. janúar 2019

Fjöldahjálparstöð í Ásgarði í Kjós

F.v.: Hrönn Pétursdóttir formaður RKÍ-Mosfellsbæ afhendir

Sigríði Klöru gögn frá RKÍ til að hafa í Ásgarði .

Þeim til fulltingis eru Atli Ö Konráðs Gunnarsson og

Sigurður Pétur Harðarson úr neyðarvarnarhópi RKÍ í Mosfellsbæ

 

Nýverið var gengið frá því að stjórnsýsluhús Kjósarhrepps, Ásgarður, yrði það húsnæði innan sveitarfélagsins sem hægt væri að virkja sem fjöldahjálparstöð ef og þegar þyrfti.  Ásgarður uppfyllir öll þau skilyrði sem gerð eru til slíkra stöðva.

 

Rauði krossinn óskaði eftir fjöldahjálparstöð í sveitarfélaginu m.a. í ljósi aukinnar umferðar og ferðamannastraums um svæðið. 

 

Deildin býr þegar yfir vel þjálfuðum og reyndum sjálfboðaliðum sem hafa búsetu í Mosfellsbæ og Kjalarnesi. 

Hins vegar getur veður verið þannig að ekki sé æskilegt að keyra fólk lengri leiðir til að opna fjöldahjálparstöð í Ásgarði.

Leitar deildin því að nokkrum einstaklingum sem búa í Kjósinni og nær Ásgarði og eru tilbúnir að taka að sér að opna fjöldahjálparmiðstöð í húsinu þegar á þarf að halda.  Þessir einstaklingar fara á kvöldnámskeið hjá Rauða krossinum áður en þeir taka til starfa, en fá aðstoð reyndra sjálfboðaliða ef opna þarf við aðstæður aðrar en bara að veita ferðalöngum skjól frá veðri.

 

Þeir sem hafa áhuga og/eða vilja bjóða sig fram geta fengið ítarlegri upplýsingar með því að hafa samband við Hrönn Pétursdóttur í netfangið formadur.moso@redcross.is

 

Fjöldahjálparstöðvar falla undir starfsemi almannavarna á Íslandi og er ákvörðun um það að opna stöðvarnar tekin af almannavarnarnefnd þegar veður, náttúruhamfarir eða slys gera það að verkum að koma þarf fólki í skjól eða aðstoða það í nauð. Það er mismunandi hversu oft slíkar stöðvar eru opnaðar, sumar aldrei eða á margra ára fresti en einstaka – eins og á Kjalarnesi – allt að fimm sinnum á ári.

 

Rekstur þessara stöðva er í höndum Rauða krossins.  Sem hluti af almannavarnarkerfinu þá hefur félagið umsjón með fjöldahjálp og sálfélagslegum stuðningi þegar náttúruhamfarir og aðrir alvarlegir atburðir eiga sér stað, auk þess að veita áfallahjálp í kjölfar vinnuslysa, hópslysa og annarra alvarlegra atburða.  Þá er þolendum húsbruna veitt fyrsta aðstoð á vettvangi, svo sem þak yfir höfuðið, mat og aðrar brýnustu nauðsynjar.  Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds og af þjálfuðum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir til aðstoðar, hvenær sem kallið kemur.

Undanfarin ár hefur Rauði krossinn á Íslandi séð um rekstur fjöldahjálparstöðvanna á höfuðborgarsvæðinu en haustið 2018 tók deild Rauða krossins í Mosfellsbæ verkefnið yfir á sínu starfssvæði en það nær til Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar. 

 

 

 

meira...

28. janúar 2019

Auglýst aftur ... eftir byggingar- og skipulagsfulltrúa

  Auglýst er aftur starf byggingar- og skipulagsfulltrúa í Kjósarhreppi.

Leitað er eftir öflugun og hæfum einstaklingi sem hefur áhuga á starfi á þessu sviði. Um er að ræða hlutastarf. 
Starfsmaðurinn fer með framkvæmd byggingar- og skipulagsskipulagsmála samkvæmt lögum og sinnir verkefnum í samstarfi við skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins sem starfar í umboði hreppsnefndar ásamt því að vinna náið með oddvita/sveitarstjóra.

 

 

Helstu verkefni:
• Móttaka skipulags- og byggingarerinda
• Undirbúningur og eftirfylgni funda skipulagsnefndar
• Úttektir, mælingar og vettvangsathuganir
• Útgáfa byggingarleyfa, framkvæmdaleyfa og stöðuleyfa.
• Umsagnir vegna útgáfu rekstrar og/eða starfsleyfa
• Yfirferð uppdrátta
• Skráning fasteigna og stofnun lóða.
• Umsjón með skjalavistun er varðar skipulags og byggingarmál og tryggja virkni gæðakerfis byggingarfulltrúa.

 

Menntunar- og hæfniskröfur:
• Umsækjendur skulu fullnægja menntunar- og hæfniskröfum 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 25. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.
• Þekking og reynsla af skipulags- og byggingarmálum ásamt opinberri stjórnsýslu er æskileg.
• Mikilvægt er að umsækjandi hafi iðnmenntun í byggingariðnaði sem bakgrunn.
• Góðir samskiptahæfileikar eru nauðsynlegir.
• Skipulögð og fagleg vinnubrögð.

 

Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um starfið.
Laun og önnur starfskjör eru samningsatriði.


Nánari upplýsingar veitir oddviti í síma 566 7100.

Umsóknir ásamt fylgigögnum skal senda á netfangið: oddviti@kjos.is

Umsóknarfrestur er til 7. febrúar 2019. 

 

 

meira...

28. janúar 2019

Lokað á skrifstofunni frá kl. 11 í dag

 

Skrifstofa Kjósarhrepps verður lokuð

frá kl. 11 í dag, mánudag 28. janúar,

vegna fundahalda starfsmanna í bænum 

meira...

25. janúar 2019

Þorrablótið er á morgun !!

 

 

Þorrablótið, þetta eina sanna er á morgun laugardag, 26. janúar 2019.

 

Er allt tilbúið ?

Búið að klippa táneglurnar og kíkja á veðurspána?

 

Umhverfisnefndin er amk búin að góma byssumennina - á undan sérsveitinni.

http://www.visir.is/g/2018180819525

 

Svo nú er öllum óhætt.

Sýnt verður frá handtökunni í þorrablótsmyndinni

 

 

 

 

 

 

meira...

23. janúar 2019

Panta þorrablótsmiðana í dag !!

 

 

Ekki gleyma !!

 

 

Miðapantanir fyrir þorrablótið

er í  síma 566 7028

(Marta Káranesi)

í dag miðvikudag 23. janúar

frá kl 15:30 – 18:00  

 

 

 

meira...

21. janúar 2019

Bókasafnið er opið næsta miðvikudag, kl. 20-22

 

Minnum á næsta bókasafnskvöld, miðvikudaginn 23. janúar nk.

Bókasafnið í Ásgarði verður opið annan hvern miðvikudag, frá kl. 20-22 út apríl.

 

Kveðja

Svana bókavörður

meira...

17. janúar 2019

9 dagar í þorrablótið !!

 

Kíktu í póstkassann þinn, náðu í þorrablótsauglýsinguna

OG LESTU HANA

 

já, þessa HÉR  

 

Hlökkum til að sjá þig

Nefndin

 

 

 

meira...

15. janúar 2019

Þorrablót Kvenfélags Kjósarhrepps 26. janúar

Þá er komið að því sem allir hafa verið að bíða eftir

 

Þorrablót Kvenfélags Kjósarhrepps verður haldið í Félagsgarði
laugardaginn 26. janúar kl. 20:30
Húsið opnað kl. 20:00
Aldurstakmark er 18 ár


Þorramatur og opinn bar. Miðaverð er kr. 8.500

Hljómsveitin Farandskuggarnir heldur uppi fjörinu til kl. 03.00

 

Miðapantanir í síma 5667028

miðvikudaginn 23. janúar, frá kl 15:30 – 18:00

 

Miðarnir verða afhentir í Félagsgarði
föstudaginn 25. janúar
á milli kl 16:00 – 18:00, Posi á staðnum


Ekki verður hleypt inn í húsið eftir matinn
Spariklæðnaður
Nefndin

 

 

meira...

14. janúar 2019

Starfs­maður í fjár­málaum­sýslu óskast

 

Skrifstofa Kjósarhrepps óskar eftir að ráða starfsmann í fullt starf við bókhald og almenna umsjón fjármálatengdra verkefna.


Leitað er að jákvæðum og þjónustuliprum starfsmanni með haldgóða þekkingu og reynslu.

 

Ráðningarstofan Capacent sér alfarið um ráðningarferlið, upplýsingar og móttöku umsókna.

 

Nánari upplýsingar um starfið, menntunar- og hæfniskröfur ásamt umsóknarformi er að finna inn á heimasíðu Capacent,  HÉR

 

 

 

meira...

12. janúar 2019

Breytt viðvera bygginarfulltrúa

  
Ekki hefur enn tekist að ráða í starf skipulags- og byggingarfulltrúa.
 
Verið að meta hvort auglýsa þurfi á ný
en þangað til nýr eftirmaður er fundinn er Jón Eiríkur Guðmundsson skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps.
 
Þar sem Jón Eiríkur er að sinna þessu starfi samhliða kennslu þá verður viðvera hans hér í Kjósinni að taka mið af hans aðalstarfi og stundarskrá.
 
 
Fram á vor mun vera hægt að ná í Jón Eirík á eftirfarandi tímum.
 
 
Viðvera á skrifstofu í Ásgarði: 
Þriðjudaga frá kl  10:00 -18:00
Sími á skrifstofu: 566-7100

 

Símaviðtalstími:
Föstudaga kl. 9-12
Farsími: 699-4396
Netfang: jon@kjos.is 

 

meira...

8. janúar 2019

Hreppsnefndarfundur

 Fundur verður haldinn í hreppsnefnd  Kjósarhrepps, 

8. janúar 2019 í Ásgarði og hefst  kl 16:00

            
Mæta eiga:
Karl Magnús Kristjánsson,  Guðný G. Ívarsdóttir, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir, Sigríður Klara Árnadóttir og Þórarinn Jónsson


Dagskrá:

1. Bréf frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga dags. 4.12.2018.

2. Samþykkt tillaga að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til auglýsingar.

3. Systkinaafsláttur fyrir dvöl á frístund.

4. Ljósleiðarinn. Staða á framkvæmdum.

5. Hluthafafundur Leiðarljóss ehf. 10.1.2019.

6. Starfsmannamál Kjósarhrepps.

7. Önnur mál.

8. Mál til kynningar.
       a. Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, 42. fundur,  20.12.2018.
       b. Stjórn SSH 462. fundur.
       c. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 865. fundur.
       d. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 866. fundur.

 

 

meira...

4. janúar 2019

Aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029, staðfest

 

Aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029,

sem samþykkt var í sveitarstjórn 4. des sl. hefur nú verið staðfest hjá Skipulagsstofnun og verður birt á næstu dögum í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Þar með er lokið 4 ára vinnu við nýtt aðalskipulag Kjósarhrepps, sem er unnið á grunni stefnumörkunar eldra skipulags.

Megin landnotkun verður sem áður hefðbundinn landbúnaður.

 

Tillögugerð og úrvinnsla aðalskipulagsins var unnin af Guðnýju G. Ívarsdóttur fyrrverandi sveitarstjóra og Þórarni Jónssyni hreppsnefndarmanni, f.h. sveitarstjórnar.
Jóni Eiríki Guðmundssyni skipulags- og bygginarfulltrúa ásamt skipulags- og byggingarnefnd; G. Oddi Víðissyni, Gunnari L. Helgasyni og Maríönnu H. Helgadóttur.  

 

Tillögugerð, úrvinnsla og framsetning aðalskipulagsins var unnin af starfsfólki Steinsholts ehf, sem síðar sameinaðist EFLU ehf, þeim Gísla Gíslasyni, Ásgeiri Jónssyni og Guðrúnu Láru Sveinsdóttur.
Einnig komu aðrir starfsmenn að vinnunni eftir þörfum. Í tengslum við aðalskipulagsgerðina var landbúnaðarland flokkað undir stjórn Ásgeirs Jónssonar og Guðrúnar Láru Sveinsdóttur.

 

Leiðarljós við gerð aðalskipulagsins er eftirfarandi:  
Skipulagið skal stuðla að hagkvæmri þróun byggðar, m.a. með því að skapa sem best skilyrði fyrir atvinnulíf og mannlíf og að gera búsetu á svæðinu eftirsóknarverða.   

 

Hér má finna lokaeintök sem staðfest voru í árslok 2018,

Aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029:

 

Aðalskipulag - Uppdráttur (kort)

Aðalskipulag - Greinargerð

Aðalskipulag - Forsendur og umhverfisskýrsla

Aðaskipulag Flokkun landbúnaðarlands

Staðfesting Skipulagsstofnunar

 

 

 

meira...

2. janúar 2019

Jólin kvödd í Félagsgarði þann 6. jan.

 

Jólin verða kvödd í Félagsgarði sunnudaginn 6. janúar á þrettánda degi jóla kl. 19.00.

Dagskráin verður að með venjubundnum hætti. Fyrst verður gengið í kringum jólatréð og sungið, og síðasti jólasveinninn kemur og kveður með tilheyrandi.

Kveikt verður í þrettándabrennunni kl. 20.00.

Að lokum verður boðið upp á heitt súkkulaði og kaffi í Félagsgarði. Gestir eru kvattir til að taka með sér veitingar til að setja á sameiginlegt veisluborð.

 

 

Viðburða- og menningarmálanefnd Kjósarhrepps.

 

meira...

24. desember 2018

Hátíðarkveðjur frá hitaveitunni

 

 Kjósarveitur ehf - hitaveita Kjósarinnar,

sendir funheitar hátíðarkveðjur.

 

Alls er búið að leggja lagnir að 477 húseignum í Kjósinni.
Árið 2017 tengdust 192 hús hitaveitunni,

árið 2018 tengdust 98 hús, en ennþá eru 187 hús með ónotaðaða lúxus-lagnir.

Hlökkum sérstaklega til að heyra frá þeim á nýju ári

 

Með bestu óskum um hlýleg komandi ár.
Stjórn Kjósarveitna og starfsmenn 

 

meira...

21. desember 2018

Hátíðarmessa kl. 14 á jóladag


       Hátíðarmessa verður í Reynavallakirkju

á jóladag kl.14.

 

Kirkjukór Reynivallaprestakalls leiðir hátíðartón og sálmasöng.

 

Gesta söngvari: Rúnar Þór Guðmundsson tenór.

 

Ritningarlestur lesa;

Ragnar Gunnarsson, Bollastöðum og

Sigríður Klara Árnadóttir, Klörustöðum

 
Organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson.

Sóknarprestur predikar og þjónar fyrir altari.

 

Guð gefi ykkur öllum gleði og frið á heilagri jólahátíð!

 

Sóknarprestur og sóknarnefnd

meira...

13. desember 2018

Líf og fjör í sveitinni á aðventu

 

Lúsíur á aðventukvöldi í Reynivallakirkju 9. des sl.

 

Það er ekki hægt að segja annað en að líf og fjör sé í Kjósinni á þessari aðventu eins og áður.

 

Aðventumarkaðurinn í Félagsgarði var vel sóttur, hangikjötið rann út og Kirkjukór Reynivallasóknar sló í gegn með jólasöngvum sínum.
 
Um 80 manns mættu á aðventukvöldið í Reynivallakirkju á 2. sunnudegi í aðventu.
Kirkjugestir nutu þess að hlusta á englasöng 7 ungra stúlkna úr sveitinni, hlýða á einlæga hátíðarræðu Hrafnhildar í Fagralandi og njóta tónlistar Bubba Morthens á heimaslóðum.

Að ógleymdum kirkjukórnum okkar frábæra, sem söng nokkur lög.

Gæddu gestir sér í lokin á heitu súkkulaði og áttu notalegt spjall við sveitungana.
 
Nær 20 manns mættu á upplestur úr jólabókum í Ásgarði í gærkvöldi, 12. desember. Þar sem Guðrún Eva Mínervudóttir, las upp úr smásagnasafni sínu um hann Austin frá Texas og Bjarni Harða fór á kostum í leiklestri bæði úr bók sinni Gullhreppurinn og úr ævisögu refaskytturnnar Guðmundar Einarssonar, Nú brosir nóttin eftir Theódór Gunnlaugsson og þá fékk hann Guðrúnu Evu sér til að stoðar að lesa um baráttu Guðmundar sem smá stráks við mannýga tarfinn. Báðar þessar bækur eru til á bókasafni Kjósarhrepps í Ásgarði ásamt heilum haug af nýjum og spennandi bókum.

 

Í dag 13. desember kl. 16,  verður auka fundur í hreppsnefnd þar sem farin verður síðari yfirferð yfir fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins fyrir næsta ár og næstu 3 ár.
 
Fimmtudaginn 20. desember mun sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarpresturinn okkar, bjóða eldra fólki úr Kjósinni og af Kjalarnesinu til  kaffisamsætis kl. 15, að prestssetrinu á Reynivöllum og gítarinn örugglega innan seilingar hjá sr. Örnu.
 
Hin árlega skötuveisla verður að venju í Félagsgarði á Þorláksmessu, sunnudaginn 23. des. kl. 13.00.
Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir hádegi fimmtudaginn 20. des. á felagsg@gmail.com eða hjá Syrrý í síma 823 6123.  Verð kr. 2.300 á mann. Frítt inn fyrir 12 ára og yngri.

 

Jólamessan verður á sínum stað í Reynivallakirkju, kl. 14 á jóladag, 25.desember.

 
Í gær, miðvikudaginn 12. des létu konur í Kvenfélagi Kjósarhrepps enn á ný gott af sér leiða og mættu færandi hendi til Kvennadeildar Landspítalans, með tvo Lazyboy stóla að andvirði nær 300 þús kr.

F.v: Hrund Kvennadeild LSP, Sigurbjörg Meðalfelli,

Jóhanna Káraneskoti, Guðný Flekkudal formaður kvenfélagsins

og Soffía Traðarholti

 

 

Nú mega jólin koma í Kjósina

 

 

Ef einhverjir vilja láta vita af fleiri viðburðum í Kjósinni og/eða nágrenni þá endilega sendið póst á kjos@kjos.is og því verður komið á framfæri hér á síðunni.

 

 

P.S. Smá praktískt í lokin.

Gámaþjónustan mun tæma bæði almennar ruslatunnur og blaðatunnur, mánudaginn 17. desember.
Koma síðan aftur sunnudaginn 30. desember og tæma þá einnig bæði rusla- og blaðatunnur.

Fyrsta ferð þeirra á nýju ári verður mánudaginn 14. janúar 2019 og þriðju ferðina í röð ætla þeir að tæma bæði rusla- og blaðatunnur.


Í kjölfarið hefst rútinu tæmingarferlið þeirra, annan hvern mánudag ruslatunnan og blaðatunnan á 4 vikna fresti.

Þannig að mánudaginn 28. janúar verður einungis ruslatunnan tæmd, sorphirðudagatalið fyrir 2019 er að finna HÉR  

 

 


meira...

12. desember 2018

Nýtt aðalskipulag 2017-2029, samþykkt í sveitarstjórn

F.v.: G. Oddur Víðisson formaður Skipulags- og byggingarnefndar

         og Karl Magnús Kristjánsson oddviti Kjósarhrepps

 

 

 

Kjósarhreppur auglýsir afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2.mgr. 32 gr. skipulagslaga nr: 123/2010 á Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029.


Aðalskipulagstillagan var samþykkt í sveitarstjórn Kjósarhrepps  4.desember sl.

Áður hafði verið brugðist við athugasemdum og ábendingum Skipulagsstofnunar.

Í framhaldi af því er óskað eftir að Skipulagsstofnun staðfesti tillöguna og auglýsi í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Formlega tilkynningu  er að finna HÉR

Einnig auglýst í Morgunblaðinu 12. desember 2018. 

 

Jón Eiríkur Guðmundsson
Skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps.

 

meira...